Tilefnið er tískuvika þar sem karlmannsfötin eru í forgrunni en stjörnuparið Beyoncé og Jay Z sátu í fremstu röð á sýningu Louis Vuitton á dögunum og aðdáendur trylltust.
Beyoncé tók sér stutt hlé frá tónleikaferðalagi plötunnar Cowboy Carter til að taka inn tískuna en hún var meðal annars með þrenna tónleika í París. Eiginmaður hennar rapparinn Jay Z var þar leynigestur og ekki sá eini þar sem hin eina sanna Miley Cyrus steig sömuleiðis á stokk.
Beyoncé og Jay Z virtust í skýjunum með nýja línu Louis Vuitton sem er hönnuð af listræna stjórnandanum og tónlistarmanninum Pharrell Williams. Pharrell sótti innblástur í fjölbreytileika og fágun indverskrar tísku við gerð línunnar.
Í lok sýningarinnar gerði Pharrell sér lítið fyrir, skokkaði til Beyoncé og gaf henni einstaka tösku frá Louis Vuitton.