Frá þessu greinir Selenskí í samfélagsmiðlafærslu.
„Samkomulagið og dómstóllinn gefa okkur raunverulegt tækifæri til að tryggja réttlæti vegna árásarglæpa. Við verðum að senda skýr skilaboð: Árás leiðir til refsingar. Evrópa öll þarf að vinna þetta í sameiningu.
[Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn í] Haag bíður þeirra sem bera ábyrgð. Það er nauðsynlegt að tekin verði ábyrgð. Við erum þakklát Evrópuráðinu fyrir að taka af skarið í þessu ferli. Réttlæti verður sannarlega náð,“ segir í færslunni.
Ekki liggur fyrir hvar dómstóllinn verður staðsettur eða hvenær réttarhöld færu fram.
Í færslu á Instagram-síðu Evrópuráðsins segir að tilgangurinn með dómstólnum verði að sakfella hátt setta leiðtoga sem eru ábyrgir fyrir árásarglæpum Rússa gegn Úkraínu. Árásarglæpir vísi til ólögmætrar beitingar hervalds á hendur öðru ríki.
Í maí árið 2023 skrifuðu Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir þáverandi utanríkisráðherra og Dmytro Kuleba, þáverandi utanríkisráðherra Úkraínu, undir sameiginlega yfirlýsingu sem fól í sér stofnun sérstaks dómstóls sem tryggði ábyrgðarskyldu vegna árásarglæpa.
Friðarviðræður Rússa og Úkraínumanna hafa enn og aftur siglt í strand en á síðasta viðræðufundi, sem fór fram í Istanbúl, lögðu rússneskir erindrekar fram kröfur sem Úkraínumenn höfðu áður sagt óásættanlegar og fela í sér uppgjöf gagnvart Rússlandi.