Fótbolti

„Ef þú vilt ekki vera hérna, farðu bara“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Lautaro Martínez trúir því ekki að Calhanoglu sé meiddur.
Lautaro Martínez trúir því ekki að Calhanoglu sé meiddur. getty

Lautaro Martínez lét liðsfélaga sinn hjá Inter, Hakan Calhanoglu, heyra það eftir að liðið datt úr leik á heimsmeistaramóti félagsliða í gær. Calhanoglu tók ekki þátt í leiknum, sem hann segir vera vegna meiðsla.

Inter datt úr leik með 2-0 tapi gegn brasilíska liðinu Fluminense. Argentínski framherjinn Martínez var svekktur með að hafa dottið úr leik, sérlega eftir að hafa einnig misst af ítalska meistaratitlinum og tapað í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í vor.

Þjálfarinn Simone Inzaghi hætti störfum skömmu eftir úrslitaleik Meistaradeildarinnar og Inter mætti því verr undirbúið til Bandaríkjanna á HM.

Skömmu eftir að mótið hófst dró Hakan Calhanoglu sig svo úr leikmannahópnum, sem hann sagði vera vegna meiðsla í kálfa en síðan þá hefur tyrkneski miðjumaðurinn sést í Istanbul og er talinn vera að semja við Galatasaray.

Forseti Inter, Giuseppe Marotta, staðfesti að fyrirliðinn Lautaro Martínez hafi verið að tala um Calhanoglu þegar hann sagði eftir leik:

„Þú verður að vilja vera hjá Inter. Við erum að berjast fyrir mikilvægum mörkum og þeir sem vilja vera hérna þurfa að sýna það. Ef þú vilt ekki vera hérna, farðu bara. Við erum hérna að leggja okkur alla fram fyrir Inter og ég hef séð fullt af hlutum sem, ég sem fyrirliði, er mjög ósáttur með…“ sagði Martínez.

Forsetinn Marotta sagði framtíð Calhanoglu óráðna en félagið væri opið fyrir tilboðum. Nýráðinn þjálfari liðsins, Christian Chivu, tjáði sig lítið um málið en virtist vera sammála Martínez.

„Ummælin sýna ástríðu og keppnisskap, vilja til að snúa aftur og breyta genginu eftir erfitt tímabil“ sagði Chivu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×