Enski boltinn

Um­boðs­maður með Íslandstengingu sakaður um að nauðga konu í sex ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jonathan Barnett sést hér á minningarathöfn um Cyrille Regis.
Jonathan Barnett sést hér á minningarathöfn um Cyrille Regis. Getty/Adam Fradgley

Fótboltaumboðsmaðurinn Jonathan Barnett hefur verið sakaður um að nauðgun í nýju dómsmáli í Bandaríkjunum.

Barnett er með sterka Íslandstengingu en hann var framkvæmdastjóri hjá umboðsskrifstofunni CAA Stellar þar til í fyrra.

CAA Stellar keypti íslensku umboðsstofuna Total Football  á sínum tíma.

Barnett var sjálfur í hópi þekktustu fótboltaumboðsmanna heims en hann hætti störfum árið 2024.

Barnett er sakaður í ákærunni um að hafa nauðgað konunni 39 sinnum. Málið fer fyrir dómstól í Los Angeles. Breska ríkisútvarpið segir frá.

Barnett neitar ásökunum og því að hann hafi notað konuna sem kynlífsþræl.

Konan kemur ekki undir nafni en segir að Barnett hafi flutt hana frá Ástralíu til Bretlands árið 2917, pínt hana og notað sem kynlífsþræl í sex ár. Barnett á að hafa hótað henni lífláti sem og ungum börnum hennar.

Barnett er 75 ára gamall og þekktastur í Bretlandi fyrir að vera umboðsmaður leikmanna eins og Gareth Bale og Jack Grealish.

Í yfirlýsingu í gegnum lögmenn sína þá segist Barnett hlakka til þess að geta hreinsað sig af þessum ásökunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×