Innlent

„Býsna margt orðið grænmerkt“

Jón Ísak Ragnarsson og Bjarki Sigurðsson skrifa
Bergþór Ólason er þingflokksformaður Miðflokksins.
Bergþór Ólason er þingflokksformaður Miðflokksins. Sýn

Bergþór Ólason segir að andinn sé góður og menn séu lausnamiðaðir í þinglokaviðræðum þótt menn takist á og hafi ólík sjónarmið. Obbinn af málunum sé þegar leiddur í jörð, en ennþá sé tekist á um stóru flóknustu málin.

Sjö frumvörp voru samþykkt á Alþingi í dag, en ekkert bólar á samkomulagi um veiðigjaldafrumvarp og þinglok. Þingflokksformenn funduðu sín á milli eftir hádegi.

Bergþór Ólason segir að eins og þetta liggi núna geti ríkisstjórnin verið býsna ánægð með þann árangur sem stefnir í að náist, en rætt var við Bergþór í kvöldfréttatíma Sýnar.

„Þannig að það er auðvitað alltaf þannig að stóru flóknustu málin eru það sem tekist er á um í lokin og það er eitthvað eftir þar ennþá. En heildarmyndin er þannig að það er býsna margt orðið grænmerkt.“

„Það er auðvitað þannig að það eru mismunandi atriði sem stjórnarflokkunum annars vegar og stjórnarandstöðu hins vegar þykja vera lykilatriði.“

Getið þið í minnihluta líka verið ánægð?

„Það á auðvitað eftir að koma í ljós hvernig þetta endanlega klárast, það eru auðvitað miklar áhyggjur sem við höfum haft af sérstaklega veiðigjaldamálinu, en það eru líka fleiri mál sem við höfum haft áhyggjur af.“

„Þetta er það sem við erum búin að vera fara í gegnum á linnulausum fundum þar sem mér hefur þótt andinn góður, auðvitað takast menn á og það eru ólík sjónarmið, en heilt yfir þá hafa bæði stjórnarflokkar og stjórnarandstöðuflokkar verið lausnarmiðaðir í þessu þykir mér.“

Bergþór vildi ekkert gefa upp um það hvort það væri krafa stjórnarandstöðunnar að veiðigjaldamálinu yrði frestað fram að hausti, eða hvort málinu yrði hleypt í gegn á þingfundi mánudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×