Enski boltinn

Leik­menn Liverpool þurfa að mæta í vinnuna í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Blómahaf er fyrir utan Anfield til minningar um Diogo Jota. Hér er faðir með ungan son að skoða þessa sérstöku sjón.
Blómahaf er fyrir utan Anfield til minningar um Diogo Jota. Hér er faðir með ungan son að skoða þessa sérstöku sjón. Getty/Peter Byrne

Liverpool hefur í dag undirbúningstímabil sitt fyrir komandi leiktíð innan við viku eftir að einn leikmaður liðsins, Diogo Jota, lést í bílslysi ásamt yngri bróður sínum.

Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, og fjöldi leikmann liðsins ferðuðust til Gondomar í Portúgal um helgina til að vera viðstaddir jarðarför Jota.

Leikmenn Liverpool áttu að mæta til vinnu síðasta föstudag og þess vegna var Jota á leiðinni norður, til að ná ferju til Englands, þegar slysið varð.

Eftir banaslysið þá frestaði Liverpool byrjun undirbúningstímabilsins um fjóra daga en leikmenn eiga í staðinn að mæta á æfingasvæðið í dag.

Liverpool átti að spila fyrsta undirbúningsleik sinn á móti Stefáni Teiti Þórðarsyni og félögum í Preston North End á sunnudaginn en sá leikur er í uppnámi vegna alls þess sem gengið hefur á.

Liverpool varð Englandsmeistari í vor og hefur keypt nýja leikmenn í sumar. Það ætti því að vera mikil spenna fyrir titilvörninni en síðustu dagar hafa verið leikmönnum, starfsmönnum og stuðningsmönnum Liverpool mjög erfiðir. Það mun því eflaust reyna mikið á menn að þurfa hefja leik á nýju án portúgalska liðsfélagans síns.

Augu fjölmiðla verða líka örugglega á æfingasvæði Liverpool í dag þegar leikmenn mæta á svæðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×