Viðskipti innlent

Raun­verð í­búða hefur þre­faldast frá alda­mótum

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Loftmynd af Vesturbæ Reykjavíkur.
Loftmynd af Vesturbæ Reykjavíkur. Vísir/Vilhelm

Íbúðaverð á Íslandi hefur hækkað langtum meira en laun og almennt verðlag frá aldamótum. Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur um það bil áttfaldast á sama tíma og laun hafa tæplega sexfaldast.

Þetta kemur fram í nýrri tilkynningu frá greiningardeild Landsbankans sem birt var í dag, en þar segir að greiðslubyrði af meðalláni hafi haldist tiltölulega stöðug til ársins 2021 þegar hún tók að hækka skarpt, sérstaklega greiðslubyrði af óverðtryggðum lánum.

Frá aldamótum hafi íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu um það bil áttfaldast, laun hafi tæplega sexfaldast, og verðlag án húsnæðis hafi tæplega þrefaldast.

Raunverð á íbúðum, miðað við vísitölu íbúðaverðs án húsnæðis, hafi því um það bil þrefaldast frá aldamótum.

Erfiðara að komast inn á íbúðamarkað

Í tilkynningunni segir að af þessu megi ráða að almennt hafi orðið sífellt erfiðara að komast inn á íbúðamarkað.

„Enda er fjárfestingin stærri en áður í samanburði við laun. En ýmislegt fleira spilar inn í, til dæmis framboð af íbúðalánum, vextir, lánþegaskilyrði, leiguverð og tilfærslur.“

Þá segir enn fremur að greiðslubyrði hafi þyngst á síðustu árum. Eftir því sem íbúðaverð hækki umfram tekjur kalli íbúðakaup, sérstaklega fyrstu kaup, á meiri lántöku.

Tekið er dæmi af húsnæðisláni frá árinu 2004.

„Hér er miðað við að árið 2004 sé tekið 10 milljóna króna lán, sem nemur um það bil 70% af meðalverði fjölbýla á höfuðborgarsvæðinu á þeim tíma. Greiðsla af slíku láni hefði numið um það bil 30% af meðalráðstöfunartekjum árið 2004.“

„Meðallaun voru um 250 þúsund krónur árið 2004 og yfir tímabilið eru launin látin fylgja vísitölu launa. Á þessu tímabili hafa laun hækkað um 320% að nafnvirði á meðan mánaðarleg greiðsla á verðtryggðu láni hefur hækkað um 440%.“

Hægt er að lesa meira um málið á vef Landsbankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×