Erlent

Trump hrósaði for­setanum fyrir færni í eigin móður­máli

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Enska er opinbert mál Líberíu.
Enska er opinbert mál Líberíu. AP/Evan Vucci

Donald Trump hrósaði forseta Líberíu fyrir færni sína á ensku í gær þegar hann fundaði með leiðtogum Afríkuríkja í Hvíta húsinu. Enska er móðurmál Líberíuforseta og flestra Líberíumanna.

Donald Trump Bandaríkjaforseta bauð afrískum leiðtogum í hádegisverðarboð á heimili sínu í gær. Joseph Boakai forseti Líberíu flutti þar stutt ávarp og þegar hann lauk máli sínu spurðist Trump fyrir um hvar Boakai hefði lært að tala svona góða ensku.

Hrósaði honum upp í hástert

„Svo góð enska, svo falleg. Hvar lærðirðu að tala svona fallega? Hvar ertu menntaður?“ spurði Bandaríkjaforseti hann og bætti við:

„Í Líberíu?“

Boakai skellti örlítið upp úr og jánkaði.

„Það er áhugavert, enskan þín er falleg. Ég er með fólk við þetta borð sem er ekki nærrum því jafngott í ensku,“ sagði Bandaríkjaforseti þá.

Fluttu þræla í massavís af ótta við uppreisnir

Líberíuríki var stofnað árið 1822 fyrir tilstilli þáverandi Bandaríkjaforseta James Monroe, höfuðborg landsins Monróvía ber enn nafn forsetans. Samstillt átak trúarhópa sem börðust gegn þrælahaldi og þrælahaldaranna sjálfa, sem óttuðust þrælauppreisnir, varð til þess að bandarískir þrælar voru fluttir í stórum stíl til þessa lands sem flestir þrælanna höfðu enga tengingu við.

Afrísk mál eru enn töluð víða í Líberíu en enska er opinbert mál landsins og mál menntunar og stjórnsýslu.

Donald Trump bauð leiðtogum frá Gabon, Gíneu-Bissá, Líberíu, Máritaníu og Senegal til hádegisverðarboðs í Hvíta húsinu í gær til að tilkynna þeim að stefna Bandaríkjanna til viðskipta í Afríku væri að breytast. Dagar þróunaraðstoðar væru liðnir og nú tækju við viðskipti á jafningjagrundvelli. Margir leiðtoganna mæltu á eigin máli og notuðu túlka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×