Enski boltinn

Stefán mætir Liverpool þrátt fyrir frá­fall Jota

Valur Páll Eiríksson skrifar
Stefán Teitur og félagar í Preston North End munu taka á móti liði Liverpool á sunnudag.
Stefán Teitur og félagar í Preston North End munu taka á móti liði Liverpool á sunnudag. Samsett/Getty

Liverpool mun spila fyrsta leik liðsins eftir skyndilegt fráfall Portúgalans Diogo Jota á sunnudaginn kemur. Til umræðu kom að aflýsa leik liðsins við Preston North End en í gær var ákveðið að hann fari fram.

Diogo Jota, fyrrum leikmaður Liverpool, og bróðir hans André Silva létust í bílslysi á Spáni aðfaranótt fimmtudags í síðustu viku. Leikmenn Liverpool komu saman til æfinga á þriðjudag og hefur eflaust reynt á leikmannahóp liðsins. Upprunalega áttu æfingar að hefjast á föstudag, degi eftir andlát Portúgalans.

Leikmenn Liverpool fóru flestir í útför Jota um helgina og komu aftur til æfinga í kjölfarið. Til skoðunar var að aflýsa fyrsta leik undirbúningstímabilsins í ljósi áfallsins en eftir viðræður Preston og Liverpool var ákveðið í gær að leikurinn færi fram.

Búast má við tilfinningaþrungnum leik og eru leikmenn Rauða hersins eflaust enn í áfalli vegna fráfalls liðsfélaga og vinar.

Samkvæmt fregnum frá Englandi eru Preston og Liverpool með til skoðunar hvernig sé best að heiðra minningu Jota.

Landsliðsmaðurinn Stefán Teitur Þórðarson er leikmaður Preston og mun því mæta Púllurum . Leikurinn fer fram á Deepdale-vellinum, heimavelli Preston, klukkan tvö á sunnudag.


Tengdar fréttir

Fótboltaheimurinn syrgir fallna félaga

Portúgölsku bræðurnir og knattspyrnumennirnir Diogo Jota og André Silva létust í bílslysi á Spáni í nótt. Fótboltamenn og fleira íþróttafólk, alls staðar að úr heiminum, syrgir fallna félaga sem létust langt fyrir aldur fram. Liverpool fána er flaggað í hálfa stöng fyrir utan Anfield leikvanginn og stórstjörnur senda fjölskyldunni samúðarkveðjur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×