Fótbolti

Fyrst Ís­lendinga til að skora og leggja upp í sama leik á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir mætir til leiks í leikinn á móti Noregi í gær.
Sveindís Jane Jónsdóttir mætir til leiks í leikinn á móti Noregi í gær. Getty/Maja Hitij

Sveindís Jane Jónsdóttir var bæði með mark og stoðsendingu í gærkvöldi í lokaleik íslenska kvennalandsliðinu á Evrópumótinu í Sviss.

Íslenska liðið tapaði 4-3 á móti Noregi og íslensku stelpurnar skoruðu þarna sínu fyrstu mörk á mótinu. Mörkin komu en sigurinn ekki.

Sveindís Jane kom Íslandi í 1-0 á sjöundu mínútu og lagði síðan annað markið mjög óeigingjarnt upp fyrir Hlín Eiríksdóttur á 85. mínútu.

Hún varð þar með fyrsti leikmaður hjá íslensku landsliði, karlaliði og kvennaliði, til að skora og leggja upp í sama leik á Evrópumóti.

Þetta var líka fyrsta mark og fyrsta stoðsending Sveindísar á stórmóti.

Aðeins einn annar leikmaður íslenska kvennalandsliðsins hefur náð að vera með bæði mark og stoðsendingu á sama Evrópumóti en það var Karólína Lea Vilhjálmsdóttir á EM í Englandi fyrir þremur árum síðan.

Margrét Lára Viðarsdóttir og Dagný Brynjarsdóttir eru hinar tvær sem hafa bæði skorað og lagt upp mark í úrslitakeppni EM en það gerðu þær á sitthvoru Evrópumótinu, Margrét Lára 2009 og 2013 en Dagný er sú eina sem hefur komið að þremur mörkum og hún gerði það á þremur Evrópumótum.

Dagný skoraði á EM 2013 og á EM 2022 og lagði upp mark á EM 2017.

Íslenska karlalandsliðið skoraði átta mörk á EM í Frakklandi 2016 en engum leikmanni liðsins tókst bæði að skora og leggja upp mark í sama leiknum.

Gylfi Þór Sigurðsson og Jón Daði Böðvarsson eru einu karlarnir sem hafa náð að vera bæði með mark og stoðsendingu á sama Evrópumótinu en þeir voru með eitt af hvoru á Evrópumótinu í Frakklandi 2016.

  • Mörk og stoðsendingar íslenska kvennalandsliðsins í sögu EM
  • EM í Finnlandi 2009 - 1 mark
  • 1) Hólmfríður Magnúsdóttir (Stoðsending: Margrét Lára Viðarsdóttir)
  • EM í Svíþjóð 2013 - 2 mörk
  • 2) Margrét Lára Viðarsdóttir (víti)
  • 3) Dagný Brynjarsdóttir (Hallbera Guðný Gísladóttir)
  • EM í Hollandi 2017 - 1 mark
  • 4) Fanndís Friðriksdóttir (Dagný Brynjarsdóttir)
  • EM í Englandi 2022 - 3 mörk
  • 5) Berglind Björg Þorvaldsdóttir (Karólína Lea Vilhjálmsdóttir)
  • 6) Karólína Lea Vilhjálmsdóttir (Frákast af varnarmanni)
  • 7) Dagný Brynjarsdóttir (víti)
  • EM í Sviss 2025 - 3 mörk
  • 8) Sveindís Jane Jónsdóttir (Frákast af skalla Alexöndru Jóhannsdóttur)
  • 9) Hlín Eiríksdóttir (Sveindís Jane Jónsdóttir)
  • 10) Glódís Perla Viggósdóttir (víti)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×