Fótbolti

Segir dóttur sína hafa gert mis­tök með því að velja ís­lenska lands­liðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andri Sigþórsson í leik með íslenska karlalandsliðinu en Amanda dóttir hans fékk að spila sínar fyrstu mínútur á Evrópumótinu í gær.
Andri Sigþórsson í leik með íslenska karlalandsliðinu en Amanda dóttir hans fékk að spila sínar fyrstu mínútur á Evrópumótinu í gær. Getty/John Giles/Alex Caparros

Fyrrum leikmaður íslenska karlalandsliðsins og tvöfaldur Íslandsmeistari með KR er ekki ánægður með tækifærin sem dóttir hans er að fá hjá Þorsteini Halldórssyni, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta.

Andri Sigþórsson deildi viðtali við dóttur sína á Vísi til að lýsa því yfir að dóttir sín hefði átt að velja norska landsliðið yfir það íslenska. Andri varð Íslandsmeistari með KR 1999 og 2000 og skoraði sjálfur 2 mörk í 7 landsleikjum en hann var afar óheppinn með meiðsli á ferlinum.

Íslenska landsliðskonan Amanda Jacobsen Andradóttir á norska móður og hefði því einnig getað spilað fyrir Noreg. Hún valdi aftur á móti að spila fyrir Ísland eins og faðir sinn.

Amanda lék sinn 25. A-landsleik í tapinu á móti Noregi í gær.

Þetta var samt í fyrsta sinn sem hún kom við sögu í mótinu en Amanda kom inn á sem varamaður á 71. mínútu þegar staðan var 3-1 fyrir Noreg. Ísland skoraði tvö mörk á þeim tíma sem Amanda var inn á vellinum.

Morgunblaðið vakti athygli á viðbrögðum föður Amöndu. Hann birti skilaboð á Instagram í þar sem stendur „Hefðir samt átt að velja Nor­eg“ og deilir viðtali við Amöndu á Vísi með var með fyrirsögninni: Valdi Ísland fram yfir Noreg: „Ég er meiri Íslendingur“

Amanda er 21 árs gömul og leikur með Twente í Hollandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×