Innlent

Mennirnir enn í haldi lög­reglu

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Lögregla girti svæðið af.
Lögregla girti svæðið af. Vísir/Viktor Freyr

Fimm karlmenn voru handteknir í tengslum við rannsókn lögreglu eftir að skoti var hleypt af á hóteli í miðborg Reykjavíkur. Allir eru enn í haldi lögreglu en enginn slasaðist.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og sérsveit ríkislögreglustjóra voru kölluð út rétt eftir klukkan ellefu í gærkvöldi eftir að lögreglu barst tilkynning um að hleypt hafi verið af skotvopni á hótelherbergi lúxushótelsins Svörtu Perlunni í miðborg Reykjavíkur.

„Einn var handtekinn á staðnum og í framhaldinu fjórir til viðbótar, bæði á höfuðborgarsvæðinu og utan þess. Við rannsókn á vettvangi mátti sjá ummerki þess að hleypt var af skotvopni, auk þess sem skotvopn fundust á staðnum,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni.

Enginn slasaðist er skotvopninu var hleypt af.

Ásmundur Rúnar Gylfason, aðstoðaryfirlögregluþjónn, staðfestir í samtali við fréttastofu að fimm karlmenn hafi verið handteknir í tengslum við rannsókn málsins og skotvopnið handlagt af lögreglu. Allir fimm eru enn í haldi lögreglu og er málið komið á borð miðlægrar rannsóknardeildar. Skýrslutaka fer fram í dag.

Fréttastofu barst myndband af því er sérsveitin leiddi einn mann út í járnum með handklæði yfir höfðinu.

Talsverður viðbúnaður lögreglu var á svæðinu og herma heimildir fréttastofu að íbúar og viðskiptavinir veitingastaða í grennd við hótelið hafi verið beðnir um að halda sig innandyra á meðan aðgerðin stóð yfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×