Innlent

Segir enga sér­staka á­stæðu fyrir á­huga á 71. greininni

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Heimir Már Pétursson er framkvæmdastjóri þingflokks Flokks fólksins.
Heimir Már Pétursson er framkvæmdastjóri þingflokks Flokks fólksins. Vísir/Vilhelm

Framkvæmdastjóri og upplýsingafulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir minnisblaði um 71. grein þingskapalaga til að grennslast fyrir um sögu þess. Hann segir enga sérstaka ástæðu fyrir beiðninni á þeim tímapunkti.

„Auk mín starfa tveir löglærðir aðstoðarmenn hjá þingflokki Flokks fólksins. Ég óskaði eftir því við annan starfsmanninn að grennslast fyrir um sögu 71. gr. þingskapa þar sem ákvæðið sker sig úr flestum ákvæðum þingskapa sem farið er eftir dagsdaglega,“ segir Heimir Már Pétursson, upplýsingafulltrúi og framkvæmdastjóri Flokks fólksins í skriflegu svari til fréttastofu.

Heimir Már segist ekki muna nákvæmlega eftir hvaða dag var óskað eftir upplýsingunum. Minnisblaðið er, samkvæmt umfjöllun RÚV, dagsett 7. maí sem er tveimur dögum eftir að fyrsta umræða um veiðigjaldafrumvarpið hófst.

„Okkur þótti þetta alls ekki merkilegt, bara hluti af daglegum störfum okkar starfsmanna. Við erum oft í viku í alls kyns samskiptum, mest munnulegum, við starfsmenn á öllum sviðum skrifstofu Alþingis,“ segir hann.

„Enginn sérstök ástæða var fyrir því að óskað var eftir þessum upplýsingum frá rannsóknarsviði skrifstofu Alþingis á þeim tímapunkti.“

Heimir segir það skyldu starfsmanna að þekkja þingskapalögin og sögu þeirra.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa beðið forseta Alþingis um að athuga hvers vegna óskað hafi verið eftir minnisblaðinu. Þingmennirnir voru afar óánægðir með ákvörðunina en sagði Ragnar Þór Ingólfsson, þingflokksformaður Flokks fólksins, að starfsfólk flokksins hefði óskað eftir minnisblaðinu líkt og Heimir Már staðfestir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×