Innlent

Framdi vopnað rán og leikur lausum hala í Reykja­vík

Agnar Már Másson skrifar
Lögregla er enn að leita mannsins að því er fram kemur í dagbók lögreglu. Mynd úr safni.
Lögregla er enn að leita mannsins að því er fram kemur í dagbók lögreglu. Mynd úr safni. Vísir/Vilhelm

Ræningi leikur lausum hala í Reykjavík eftir að hafa framið vopnað rán í söluturn í miðborginni og numið á brott fjármuni. Starfsmanninn sakaði ekki en ræninginn bar hníf.

Í dagbók lögreglu með verkefnum milli klukkan 17 og 5 er greint frá því að lögreglunni hafi verið tilkynnt um vopnað rán í hverfi 101, sumsé miðbæ eða gamla Vesturbæ.

Þar hafi maður ógnað starfsmanni söluturns með hníf og komst undan með eitthvað af fjármunum. Starfsmanninn sakaði ekki.

Maðurinn var ekki fundinn þegar lögregla sendi út dagbókarpóstinn um klukkan 4.45 er ritað en þar segir að málið sé í rannsókn.

Handalögmál og eignaspjöll

Í öðrum fregnum í dagbók lögreglu er greint frá ósætti milli tveggja manna í hverfi Breiðholts sem endaði þannig að annar maðurinn hafi átt í hótunum við hinn og svo framið eignaspjöll á farartæki í eigu hans. Lögregla hafi komið á vettvang og tekið framburð af mönnunum.

Þá hafi verið tilkynnt um nágrannaerjur í sama hverfi en þar hafi handalögmál átt sér stað á milli nágranna þegar lögregla mætti á staðinn. Framburður var tekinn af aðilum á vettvangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×