Fótbolti

Arnór Ingvi skoraði og lagði upp áður en hann fór meiddur af velli

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Átti frábæran leik.
Átti frábæran leik. Norrköping

Arnór Ingvi Traustason var allt í öllu þegar Norrköping lagði Värnamo 3-1 í efstu deild sænsku knattspyrnunnar í dag. Njarðvíkingurinn skoraði eitt og lagði upp annað. Hann fór því miður meiddur af velli í síðari hálfleik.

Christoffer Nyman kom Norrköping yfir strax á 3. mínútu og heimamenn í góðum málum. Það reyndist eina mark fyrri hálfleiks en snemma í þeim síðari jöfnuðu gestirnir.

Þá tók Arnór Ingvi til sinna mála. Á 52. mínútu kom hann Norrköping yfir á nýjan leik með frábærri afgreiðslu eftir langan bolta fram frá markverði liðsins.

Þremur mínútum síðar lagði Arnór Ingvi upp annað mark Nyman í leiknum og staðan orðin 3-1.

Því miður fyrir Arnór Ingva þurfti hann að yfirgefa völlinn á 65. mínútu vegna meiðsla. Vonandi fyrir hann og Norrköping er ekki um alvarleg meiðsli að stríða.

Leiknum lauk með 3-1 sigri Norrköping sem er nú komið með 18 stig í 11. sæti að loknum 16 umferðum. Ísak Andri Sigurgeirsson lék þá allan leikinn á hægri væng Norrköping.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×