Sport

Eir Norður­landa­meistari en fékk of mikla hjálp til að fá metið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eir Chang Hlésdóttir fagnaði Norðurlandameistaratitlinum með íslenska fánann.
Eir Chang Hlésdóttir fagnaði Norðurlandameistaratitlinum með íslenska fánann. Frjálsíþróttasamband Íslands

Ísland vann fern verðlaun á Norðurlandamóti tuttugu ára og yngri í Svíþjóð um helgina en stjarna helgarinnar hjá íslenska liðinu var spretthlauparinn Eir Chang Hlésdóttir.

Eir Chang varð Norðurlandameistari U20 í 200 metra hlaupi eftir frábært hlaup.

Hún kom í mark á 23,42 sekúndum sem er betri tími en Íslandsmet hennar en Eir fékk of mikla hjálp til að fá metið.

Vindurinn var +2,8 og því ekki um Íslandsmet að ræða. Íslandsmetið á Eir sjálf en hún hljóp á 23,44 sekúndum í Evrópubikarnum í síðasta mánuði. Þá bætti hún sex ára gamalt Íslandsmet Guðbjargar Jónu Bjarnadóttur um eitt sekúndubrot. Frjálsíþróttasambandið segir frá.

Þetta voru önnur verðlaun Eirar á mótinu því hún fékk bronsverðlaun í 100 metra hlaupinu á laugardeginum. Eir hljóp þá á 11,79 sekúndum en það var hennar annar besti tími í 100 metra hlaupi á ferlinum.

Ísold Sævarsdóttir vann einnig tvenn verðlaun á mótinu, eitt silfur og eitt brons.

Hún kom í mark í 100 metra grindahlaupi á 14,41 sekúndum sem er hennar annar besti tími í greininni. Ísold endaði í þriðja sæti í hlaupinu.

Ísold átti einnig frábært langstökk og endaði þar í öðru sæti með stökk upp 5,98 metra.

Ísold var þar að bæta sig utanhúss um þrjá sentímetra. Hún var með þrjú gild stökk, 5,94 metra, 5,96 metra og 5,98 metra. Hún er því að dansa í kringum sex metrana og átti jöfn stökk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×