Innlent

Sam­starfið við Íra og Frakka tíma­frekt

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Tilkynnt var um andlát fólksins á Edition-hótelinu á laugardagsmorgun.
Tilkynnt var um andlát fólksins á Edition-hótelinu á laugardagsmorgun. Vísir/Vilhelm

Rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á andláti tveggja ferðamanna á hótelinu Reykjavík Edition miðar ágætlega að sögn fulltrúa í rannsóknardeild.

Eiríkur Valberg fulltrúi í rannsóknardeild lögreglunnar segir að rannsóknin sé tímafrek enda unnin í samstarfi við lögregluembætti í Írlandi, þar sem aðilar málsins voru búsettir, og Frakklandi þar sem þeir höfðu ríkisfang.

Rannsóknin snýr að andláti tveggja ferðamanna með franskt ríkisfang sem dvöldu á hótelinu Reykjavík Edition í miðborg Reykjavíkur. Hótelstarfsmaður kom að tveimur látnum og þeim þriðja særðum á hótelherbergi sínu en sá var eiginkona annars fórnarlambsins og móðir hins. Hún var handtekin og er grunuð um manndráp.

Gæsluvarðhald yfir henni rennur út á fimmtudaginn. Eiríkur segist ekki geta tjáð sig um hvort til standi að framlengja gæsluvarðhald yfir henni.

Fram hefur komið að faðirinn og dóttirin hafi verið stungin til bana og að grunur sé um að fleiru en einu eggvopni hafi verið beitt. Þau voru búsett í Dyflinni og því teygir rannsókn málsins sig til bæði Írlands og Frakklands auk Íslands að sjálfsögðu en þau voru franskir ríkisborgarar. 

Eiríkur segir samstarfið aðallega felast í upplýsingamiðlun en eðli málsins samkvæmt hægi það á ferlinu að vinna að rannsókn þvert á þrjú embætti í þremur löndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×