Forsetatíð Höllu Tómasdóttur hefur nú varað í eitt ár. Hún hefur þurft að takast á við sprungna ríkisstjórn, boðað til Alþingiskosninga, og veitt stjórnarmyndunarumboð sem leiddi til myndun nýrrar stjórnar. Einnig hefur hún farið í heimsóknir víða, bæði innanlands, til nágrannalanda og langt út í heim. Þá hefur ýmislegt annað varðandi forsetatíð hennar vakið athygli. Þann 1. ágúst í fyrra var Halla sett í embætti forseta eftir að hún var kjörin forseti tveimur mánuðum áður. Embættistakan hófst með helgiathöfn í Dómkirkjunni og síðan undirritaði hún drengskaparheit að stjórnarskránni í Alþingishúsinu venju samkvæmt. „Ég stend hér í dag með hjartað fullt af þakklæti, fyrir það traust sem mér og okkur hjónum er sýnt. Þakklát foreldrum mínum, sem gáfu mér gott veganesti út í lífið. Og ég er þakklát kjarkmiklu konunum sem sýndu mér ungri að aldri að með hugrekki og samtakamætti getum við hreyft við samfélaginu, og leitt framfarir,“ voru upphafsorð ávarps Höllu við það tilefni. Lærðu lexíu eftir umdeild bílakaup Í aðdraganda embættistökunnar hafði eitt tiltekið mál varðandi Höllu og Björn Skúlason, eiginmann hennar, verið milli tannanna á fólki. Málið varðaði bílakaup forsetahjónanna og myndbirtingu af þeim. Þau höfðu sem sagt keypt nýjan Volvo-rafbíl af Brimborg og bílaumboðið birti mynd af hjónunum með nýja bílnum á Facebook. Sú færsla var síðar fjarlægð. Sérstaka athygli vakti að forstjóri Brimborgar væri á gestalista Höllu fyrir embættistökuna, og að þau hefðu fengið um 550 þúsund króna afslátt. Kjörin voru að sögn forstjórans í samræmi við reglur fyrirtækisins. Eftir embættistökuna var Halla spurð út í málið. Hún sagðist hafa lært lexíu af þessu og vonaðist til þess að aðrir hefðu gert það líka. Allir ættu að vita að ekki ætti að nota forsetann í auglýsingaskyni. Þau hjónin hefðu einnig verið nokkuð grunlaus þar sem þau hefðu verið að undirbúa sig fyrir ný hlutverk. „Þetta dæmi er kannski eins og mörg önnur dæmi í samfélaginu í dag. Stundum ræðum við alveg ótrúlega mikið um eitthvað sem að kannski skiptir ekki meginmáli, og ótrúlega lítið um stóru málin sem varða framtíð þessa lands og þessarar þjóðar,“ sagði Halla. Hópsöngur í eftirpartýi á Bessastöðum Eins konar eftirpartý embættistöku Höllu vakti eftirtekt. Eftir að athöfninni í Dómkirkjunni og Alþingissalnum lauk færðist gamanið yfir í Smiðju, viðbyggingu Alþingis, og svo á Bessastaði. Í þessu eftirpartýi mættu til að mynda áhrifavaldarnir Lína Birgitta Sigurðardóttir og Eyþór Aron Wöhler. Sá síðarnefndi hafði tekið virkan þátt í kosningabaráttu Höllu, sem tók fram að í þessu teiti yrði lögð áhersla á að fagna ungu sjálfboðaliðunum sem tóku þátt í henni. Veislugestirnir tóku lagið í Bessastaðastofu og sungu Ég er kominn heim. Mörg myndbönd af því sáust á samfélagsmiðlum, enda margir símar á lofti. Ræddi harmleikinn á Menningarnótt á Alþingi Halla mætti á þingsetningu í fyrsta skipti þann 10. september í fyrra. Athöfnin þótti söguleg fyrir þær sakir, og líka vegna þess að nýr biskup, Guðrún Karls Helgudóttir, kom að hinni kirkjulegu athöfn. Í ávarpi Höllu kom hún víða við. Hún fjallaði til að mynda mikið um harmleik sem hafði nýlega átt sér stað þar sem Bryndís Klara Birgisdóttir, sautján ára stúlka, var stungin til bana á Menningarnótt. Í ræðu sinni spurði Halla sig hvernig brugðist yrði við þeim hörmungum. Um væri að ræða sameiginlega ábyrgð sem engir flokkadrættir ættu að vera um. „Þeir sorglegu atburðir sem orðið hafa undanfarnar vikur láta engan ósnortinn. Einlæg samúð okkar er hjá öllum þeim sem eiga um sárt að binda. Jafnframt er einhugur um að síaukið ofbeldi verður að stöðva. Við þurfum að kafa dýpra, að uppsprettu þeirrar vanlíðanar sem brýst fram í ofbeldi. Enginn sem líður vel, hvort sem er fullorðinn eða barn, vopnast til að meiða aðra. Við verðum að vera sérstaklega vakandi fyrir líðan barna og geta brugðist við þegar grípa þarf til ráðstafana,“ sagði Halla í ávarpi sínu. Hitti Danakonung og tvær Danadrottningar Fyrsta opinbera ríkisheimsókn Höllu sem forseta var til Danmerkur í upphafi októbermánaðar. Þar tóku Friðrik tíundi Danakonungur og María drottning á móti forsetahjónunum. „Það er eiginlega eins og við höfum verið að hitta gamla vini. Við erum mjög þakklát fyrir þessa hlýju sem við skynjum allt í kring en sérstaklega gestrisnina frá konungshjónunum,“ sagði Halla í viðtali við fréttastofu meðan á heimsókninni stóð. Þá sagði Halla að það hefði komið henni skemmtilega á óvart þegar hún hitti Margréti Þórhildi, Danadrottningu. „Hún er stór kvenfyrirmynd mín og góð vinkona okkar fyrsta lýðræðislega kjörna kvenforseta Íslands, frúr Vigdísar Finnbogadóttur. Svo það var mjög gaman líkt og allt annað í heimsókninni. Þetta hefur verið ævintýri fyrir mig að vera hér,“ sagði Halla. Aðal umtalsefnið að ræðan væri á ensku og skórnir brúnir Halla hélt ræðu á hátíðarkvöldverði í Kristjánsborg í þessari heimsókn. Ræðan vakti athygli hér á landi af þeim sökum að Halla flutti hana nær einvörðungu á ensku. Bent var á að hún væri fyrst allra íslenskra forseta til að flytja ekki ræðu í sinni fyrstu ríkisheimsókn til Danmerkur á dönsku. Þar er reyndar Sveinn Björnsson undanskilinn því hann fór aldrei í opinbera heimsókn til Danmerkur. „Ég hélt ræðu fyrir danska þingið í gær á dönsku og var sagt að það hefði heppnast ágætlega þó ég væri auðvitað full efasemda um getu mína til að gera það. Ég get alveg talað dönskuna og hefði alveg getað flutt alla ræðuna á dönsku. Mér fannst skipta máli, af því að í herberginu var fólk sem hvorki skilur né talar dönsku, að hafa hana á þremur tungumálum og gefa öllum tækifæri til að tengja við hana,“ sagði Halla þegar hún var spurð út í þessa ákvörðun. Annað sem vakti athygli var að Halla skyldi hneigja sig fyrir Friðriki Danakonungi og að Björn hefði verið í brúnum skóm þegar hann hitti konungshjónin. Ragnheiður Ásta Sigurðardóttir, konungssinni sem fréttastofa ræddi við af þessu tilefni, sagði að með hneigingunni hefði Halla sýnt nýkrýndum konungi virðingu sína, sem hefði verið „mjög smart“. Þá virtist danska pressan ekki hafa kippt sér upp við skófatnað Björns. Þá sagði Halla að heimsókninni lokinni að áhuginn á skófatnaði Björns hefði komið Maríu drottningu á óvart. „Ég get sagt að það vakti athygli hjá mér, og jafnvel dönsku drottningunni, að umræða um brúna skó eiginmanns míns hefði verið mest lesna fréttin á Íslandi eftir dag þar sem margar aðrar innihaldsríkar fréttir urðu til,“ sagði Halla í Bakaríinu á Bylgjunni. Stjórnarslit, kosningar og nýársávarp Þann 13. október, þegar heimsókninni til Danmerkur var nýlokið, kom babb í bátinn. Bjarni Benediktsson, þáverandi forsætisráðherra, sagði ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, og Vinstri grænna lokið. Morguninn eftir fundaði Halla með Bjarna sem óskaði eftir að hún myndi rjúfa þing. Í kjölfarið fundaði Halla með formönnum allra flokka sem þá áttu sæti á þingi. Daginn eftir greindi Halla frá ákvörðun sinni um að fallast á beiðni Bjarna um þingrof og boðaði til kosninga sex vikum síðar. Þá bað hún ríkisstjórnina um að halda áfram þangað til sem starfsstjórn. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn féllust á það, en ekki Vinstri græn. Kosningarnar fóru fram 30. nóvember. Halla fundaði aftur með formönnunum tveimur dögum síðar, en þeim hafði þá fækkað um tvo þar sem Píratar og Vinstri grænar fengu ekki mann á þing. Degi síðar veitti Halla Kristrúnu Frostadóttur, formanni Samfylkingarinnar sem hlaut mest fylgi í kosningunum, umboð til stjórnarmyndunar. Hún myndaði í kjölfarið ríkisstjórn með Viðreisn og Flokki fólksins. Í fyrsta nýársávarpi sínu talaði Halla um það sem skref í átt að jafnrétti að þrjár konur, Kristrún, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Inga Sæland, hefðu leitt stjórnarmyndunarviðræður og myndað ríkisstjórn. Fór ekki til Auschwitz Hér á landi var nokkuð fjallað um minningarathöfn um helförina í Auschwitz sem fór fram í Póllandi í lok janúar í tilefni af því að áttatíu ár voru liðin frá frelsun útrýmingarbúðanna. Halla sótti ekki viðburðinn. Greint var frá því að minningarathöfnin hefði ekki hentað dagskrá Höllu. Rúv fjallaði um málið og sagðist hafa fengið þau svör að þegar minningarathöfnin hafi verið haldin hafi forsetinn verið heima á Bessastöðum. Samkvæmt stjórnartíðindum hafi hún hins vegar verið erlendis milli 17. janúar og komið heim 27. janúar, sama dag og minningarathöfnin fór fram. Svo kom fram að forsetahjónin hefðu verið í einkaferð erlendis. Ferðin var til Dóminíska lýðveldisins þar sem Björn nýtti tækifærið og tók upp myndband fyrir samfélagsmiðla um collagen sem hann framleiðir. View this post on Instagram A post shared by just björn (@justbjorncollagen) Í kjölfarið fékk Vísir þau svör að fjölskylduferð Höllu hefði spilað inn í ákvörðunina um að fara ekki til Auschwitz, en ekki haft úrslitaáhrif. Til að mynda hafi dagskrá forseta verið nokkuð bókuð. Umfang opinberra heimsókna sé slíkt að takmarka þurfi ferðir forseta erlendis. Ákvarðanir um þetta séu byggðar á því fjármagni og mannauði sem forsetaembættið ræður yfir. „Ekki þótti rými til að bæta við ferð til Póllands í lok janúar,“ sagði í svari til fréttastofu. Umboðsmaður Alþingis óskaði eftir upplýsingum frá skrifstofu forseta Íslands um fyrirkomulag upplýsingagjafar um málefni sem snerta forsetann. Seinna komst umboðsmaður að því að afgreiðsla á beiðnum fréttastofu RÚV hafi ekki verið fyllilega í samræmi við ákvæði upplýsingalaga. Fyrsta opinbera heimsóknin innanlands Halla og Björn héldu í fyrstu opinberu heimsókn þeirra innanlands í mars. Þá fóru þau til Hafnar í Hornafirði. Um var að ræða tveggja daga heimsókn með þéttri dagskrá þar sem þau dvöldu á Höfn en ferðuðust líka um Suðursveit og Öræfi. Þar heimsóttu þau ýmsar stofnanir og fyrirtæki. Á meðal þess sem var á dagskrá var hátíðarkvöldverður á veitingastaðnum Pakkhúsinu. Undirskriftin umtalaða Undirskrift Höllu var mikið til umfjöllunar í mars. Hún hafði skrifað undir „Halla Tomas“ á tónleikaskrá á 75 ára afmælistónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Vegna málsins ræddi Morgunblaðið við Guðrúnu Kvaran, prófessors emerita í íslensku við Háskóla Íslands, sem furðaði sig á undirskriftinni. „Mér finnst mjög mikilvægt að Íslendingar skrifi nöfn sín á eðlilegan hátt. Þá á hún nú ekki að skammast sín fyrir að vera dóttir einhvers, hún á bara að skrifa „Tómasdóttir“,“ sagði Guðrún. Dagur B. Eggertsson, þingmaður Samfylkingarinnar, setti umfjöllunina í samhengi við undirskrift Davíðs Oddssonar, ritstjóra Morgunblaðsins, þegar hann gegndi embætti seðlabankastjóra. Dagur túlkaði undirskrift Davíðs, sem hann birti mynd af, sem „Gmmtnnnnm“. Hélt ræðu á íslensku í annarri heimsókninni Halla fór í sína aðra opinberu heimsókn í apríl, nú til Noregs. Ríkjaheimsóknin þótti söguleg af þeim sökum að þar tóku á móti Höllu og Birni þrjár kynslóðir norsku konungsfjölskyldunnar. Þar sinnti jafnframt Ingiríður prinsessa sínu fyrsta opinbera embættisverki í ríkisheimsókn. Aftur sótti Halla hátíðarkvöldverð og í þetta skipti flutti hún ræðu á íslensku. „Ég ákvað þetta fyrir löngu. Því auðvitað er þetta tungan sem stendur næst þeirri tungu töluðum saman og eigum sameiginlega. Það ríkir á okkur ákveðin skylda og tækifæri til að halda því á lofti. Það er kannski algengara en fólk veit að í svona heimsóknum milli þjóða að þá tali þjóðhöfðinginn sína tungu. En það hefur ekki oft, skilst mér, gerst áður að okkar þjóðhöfðingjar hafi talað íslensku. Mér fannst skemmtilegt að gera það og því var gríðarlega vel tekið,“ sagði hún í samtali við fréttastofu. Til þess að allir myndu þó skilja ræðu hennar var hún aðgengileg veislugestum útprentuð á norsku. „Tungumálin okkar eru lík og það er mikilvægt að benda á það að þegar maður heldur ræður vill maður að fólk skilji sig. Í salnum voru allir gestir með ræðuna á norsku og náðu að fylgja nokkurn veginn á meðan ég talaði íslenskuna og fannst það afskaplega áhugavert,“ sagði Halla. „Þetta er góð leið til að lyfta okkar fallega tungumáli sem á allan rétt á því að vera á sviðinu eins og önnur.“ Þessi ræðuhöld vöktu þó líka athygli af öðrum ástæðum. Halla þurfti að gera stutt hlé á ræðu sinni vegna veikinda veislugests. Fram kom að umræddur veislugestur væri þó heill á húfi. „Pope Francis“ Frans páfi lést 88 ára gamall þann 21. apríl. Halla sendi frá sér samúðarkveðju vegna fráfalls hans á Facebook. Færsla hennar vakti helst athygli vegna þess að í henni kallaði hún hin andaða páfa „Pope Francis“. Færslunni var þó breytt skömmu síðar. Ansi margir lögðu orð í belg varðandi þessa færslu. Margir gagnrýndu orðaval forsetans eða gerðu grín að því. „Sko. Ég er sérstaklega umburðarlyndur maður. En þetta hefði President Tomas nú alveg getað gert betur. Hún hefði til dæmis getað syrgt fráfall „Franciscus Papa“ ef henni er af einhverjum ástæðum illa við að nota hið íslenska „Frans páfa“. Hvorki páfinn né páfastóll hafa neitt sérstakt með enska tungu að gera,“ skrifaði til dæmis Illugi Jökulsson fjölmiðlamaður á Facebook. Aðrir komu Höllu til varnar, líkt og Vigdís Grímsdóttir rithöfundur. „Halla ræður sínum skrifum, held að hneykslunin segi mest um þá sem heilaga telja sig.“ Halla tjáði sig um málið á Facebook degi síðar. Þar viðurkenndi hún að henni hefði brugðist bogalistin og útskýrði hvað hefði orsakað það. „Ég var að brúna kartöflur með páskalambinu um leið og ég var að skrifa þessa frægu samfélagsmiðlafærslu. Ætlun mín var að tengja við opinbera síðu Frans páfa á Instagram svo ég sló inn Pope Francis og fékk upp @franciscus. Ég bað eiginmanninn (sem var að taka út hrygginn) að kanna hvort um rétta síðu væri að ræða á meðan ég kláraði kartöflurnar og færsluna í nokkrum flýti áður en mamma kom í mat. Í látunum fór að-merkið (@) forgörðum og því fór sem fór,“ skrifaði Halla. „Á því axla ég fulla ábyrgð og breytti færslunni að loknum hádegisverði þegar mér hafði verið bent á mín mistök. Ég þakka ykkur sem standið vaktina og minnið okkur öll á mikilvægi þess að við stöndum saman vörð um okkar einstöku tungu. Ég er með ykkur í liði. Ég get ekki lofað ykkur því að ég geri ekki fleiri mistök, ég er mannleg og vil vera það því ég trúi að af mistökunum lærum við mest og minnst lærum við þegar við teljum sjálfum okkur og öðrum trú um að við vitum allt best.“ Hitti Biden í útförinni Halla sótti útför páfans í Páfagarði ásamt tveimur öðrum fulltrúum Íslands, Þorgerði Katrínu utanríkisráðherra og Einari Gunnarssyni sendiherra. Þar voru þau ásamt fjölda annarra þjóðarleiðtoga, en Halla birti til að mynd af sér ásamt Joe Biden, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, á samfélagsmiðlum. Fékk lánuð gleraugu Aftur fóru Halla og Björn í opinbera heimsókn í byrjun maímánaðar, í þetta skiptið til Svíþjóðar. Þar tóku Karl Gústaf sextándi konungur og Silvía Svíadrottning á móti þeim. Atvik sem átti sér stað við móttökuathöfnina vakti athygli í sænsku pressunni. Það mun hafa verið vindasamt í Stokkhólmi þennan dag og fauk lítill íslenskur fáni að Höllu og Karli Gústafi. Konungurinn, sem er 79 ára gamall, er sagður hafa brugðist fljótlega við, beygt sig niður og tekið upp fánann, og svo rétt Höllu hann. Hún hafi svo veifað fánanum fyrir framan viðstadda. Halla tekur við fánanum sem Karl Gústaf reif upp af jörðinni.Leifur Rögnvaldsson Einnig greindu sænskir fjölmiðlar frá því að Halla hafi týnt lesgleraugum sínum áður en hún hélt ræðu meðan á heimsókninni stóð. Hún hafi því fengið lánuð gleraugu frá einum sem var viðstaddur. Hennar gleraugu hafi þó fundist áður eða á meðan hún hélt ræðuna. Engu að síður hafi Halla þakkað fyrir lánið og sagt það gott dæmi um vináttu Íslendinga og Svía. Hitti eina keisara heims Forsetahjónin skelltu sér síðan til Japan, á heimssýninguna í Osaka í lok maí. Ísland tók þátt í samnorrænum sýningarskála og féll úthlutaðan þjóðardaginn 29. maí. Þann dag var Halla heiðursgestur. Þess má geta að þann sama dag fögnuðu Halla og Björn 21. árs brúðkaupsafmæli. Halla nýtti Japansferðina og kíkti líka til Tókýó og hitti eina núlifandi keisara heims, Naruhito Japanskeisara, og Shigeru Ishiba, forsætisráðherra Japan. „Mikill heiður að hitta keisara og forsætisráðherra Japans og ræða meðal annars menningartengsl, jafnréttismál, jarðvarma, heilsu hafsins og frið,“ skrifaði hún á Facebook. Halla Tómasdóttir og Naruhito keisari.Facebook/Halla Tómasdóttir Breyttu áralangri hefð 17. júní Skömmu fyrir þjóðhátíðardag Íslendinga, 17. júní var greint frá því að Halla myndi flytja hátíðarávarp á Austurvelli í stað Kristrúnar forsætisráðherra. Allt fram til þess hafði forsætisráðherra flutt þetta ávarp. Guðni Th. Jóhannesson, forveri Höllu, hafði lagt til í kveðjuávarpi sínu til Alþingis, að þessari hefð yrði breytt og forsetinn myndi flytja ávarpið í stað forsætisráðherra. Bjarni, forveri Kristrúnar, tók ekki undir það og vísaði til þess að mjög löng hefð væri fyrir því að forsætisráðherra flytti ávarpið. Kristrún og Halla ákváðu hins vegar að verða við ósk Guðna síðastliðinn þjóðhátíðardag. Kristrún og Halla við styttuna af Jóni Sigurðssyni.Vísir/Viktor Halla fór um víðan völl í ávarpinu, og ræddi til dæmis um símanotkun Íslendinga. „Sjálf ætla ég að ganga á undan með góðu fordæmi og fara í sumarfrí frá Facebook og almennt ætla ég að fækka stundum á samfélagsmiðlum og vona að sem flestir skólar og fjölskyldur fari inn í sumarið og haustið með einhver skynsamleg mörk í kringum þá rænuþjófa. Ég ætla frekar að fjölga samtölum í raunheimum, taka þátt í og standa fyrir fleiri samtölum með von um að á næsta ári höldum við Þjóðfund og ræðum þá framtíð sem bíður barna okkar.“ Halla á Nýja Íslandi á tímamótatímum Nú þegar ár er liðið frá því að Halla tók við forsetaembættinu er hún stödd, ásamt Birni, á Nýja Íslandi í Kanada. Þar er öðrum tímamótum fagnað því 150 ár eru liðin frá því að fyrsti stóri Íslendingahópurinn fór vestur um haf, til Manitoba og stofnaði Nýja Ísland. Þar mun Halla koma víða við. Hún mun til að mynda taka þátt í skrúðgöngu og flytja hátíðarræðu á Íslendingadeginum 4. ágúst. Halla Tómasdóttir Forseti Íslands Kóngafólk Danmörk Noregur Japan Svíþjóð Alþingi Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar (2024) Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur Andlát Frans páfa Joe Biden Mest lesið Fjölskyldufaðir stunginn meðan sonurinn horfði á Innlent Fékk sex milljónum of há laun og neitaði að endurgreiða þau Innlent Þjóðhátíð í Eyjum: Farþegafjöldi í Herjólfi komi á óvart Innlent „Manneskja sem er komin á þetta plan hlýtur að vera rökþrota“ Innlent Vann skemmdir á golfvelli og skildi eftir smokk Innlent Sagði foreldrana líklega hafa dottið í aðdraganda andlátsins Innlent Trump ræsir út kjarnorkukafbáta eftir „ögrandi“ ummæli Rússa Erlent Klíndu límmiðum á Ormsson sem versla ekki einu sinni við Rapyd Innlent „Ég upplifi þetta sem mikinn yfirgang og ofbeldi“ Innlent Þjóðhátíðargestum hleypt inn í Herjólfshöll meðan veðrið gengur yfir Innlent
Þann 1. ágúst í fyrra var Halla sett í embætti forseta eftir að hún var kjörin forseti tveimur mánuðum áður. Embættistakan hófst með helgiathöfn í Dómkirkjunni og síðan undirritaði hún drengskaparheit að stjórnarskránni í Alþingishúsinu venju samkvæmt. „Ég stend hér í dag með hjartað fullt af þakklæti, fyrir það traust sem mér og okkur hjónum er sýnt. Þakklát foreldrum mínum, sem gáfu mér gott veganesti út í lífið. Og ég er þakklát kjarkmiklu konunum sem sýndu mér ungri að aldri að með hugrekki og samtakamætti getum við hreyft við samfélaginu, og leitt framfarir,“ voru upphafsorð ávarps Höllu við það tilefni. Lærðu lexíu eftir umdeild bílakaup Í aðdraganda embættistökunnar hafði eitt tiltekið mál varðandi Höllu og Björn Skúlason, eiginmann hennar, verið milli tannanna á fólki. Málið varðaði bílakaup forsetahjónanna og myndbirtingu af þeim. Þau höfðu sem sagt keypt nýjan Volvo-rafbíl af Brimborg og bílaumboðið birti mynd af hjónunum með nýja bílnum á Facebook. Sú færsla var síðar fjarlægð. Sérstaka athygli vakti að forstjóri Brimborgar væri á gestalista Höllu fyrir embættistökuna, og að þau hefðu fengið um 550 þúsund króna afslátt. Kjörin voru að sögn forstjórans í samræmi við reglur fyrirtækisins. Eftir embættistökuna var Halla spurð út í málið. Hún sagðist hafa lært lexíu af þessu og vonaðist til þess að aðrir hefðu gert það líka. Allir ættu að vita að ekki ætti að nota forsetann í auglýsingaskyni. Þau hjónin hefðu einnig verið nokkuð grunlaus þar sem þau hefðu verið að undirbúa sig fyrir ný hlutverk. „Þetta dæmi er kannski eins og mörg önnur dæmi í samfélaginu í dag. Stundum ræðum við alveg ótrúlega mikið um eitthvað sem að kannski skiptir ekki meginmáli, og ótrúlega lítið um stóru málin sem varða framtíð þessa lands og þessarar þjóðar,“ sagði Halla. Hópsöngur í eftirpartýi á Bessastöðum Eins konar eftirpartý embættistöku Höllu vakti eftirtekt. Eftir að athöfninni í Dómkirkjunni og Alþingissalnum lauk færðist gamanið yfir í Smiðju, viðbyggingu Alþingis, og svo á Bessastaði. Í þessu eftirpartýi mættu til að mynda áhrifavaldarnir Lína Birgitta Sigurðardóttir og Eyþór Aron Wöhler. Sá síðarnefndi hafði tekið virkan þátt í kosningabaráttu Höllu, sem tók fram að í þessu teiti yrði lögð áhersla á að fagna ungu sjálfboðaliðunum sem tóku þátt í henni. Veislugestirnir tóku lagið í Bessastaðastofu og sungu Ég er kominn heim. Mörg myndbönd af því sáust á samfélagsmiðlum, enda margir símar á lofti. Ræddi harmleikinn á Menningarnótt á Alþingi Halla mætti á þingsetningu í fyrsta skipti þann 10. september í fyrra. Athöfnin þótti söguleg fyrir þær sakir, og líka vegna þess að nýr biskup, Guðrún Karls Helgudóttir, kom að hinni kirkjulegu athöfn. Í ávarpi Höllu kom hún víða við. Hún fjallaði til að mynda mikið um harmleik sem hafði nýlega átt sér stað þar sem Bryndís Klara Birgisdóttir, sautján ára stúlka, var stungin til bana á Menningarnótt. Í ræðu sinni spurði Halla sig hvernig brugðist yrði við þeim hörmungum. Um væri að ræða sameiginlega ábyrgð sem engir flokkadrættir ættu að vera um. „Þeir sorglegu atburðir sem orðið hafa undanfarnar vikur láta engan ósnortinn. Einlæg samúð okkar er hjá öllum þeim sem eiga um sárt að binda. Jafnframt er einhugur um að síaukið ofbeldi verður að stöðva. Við þurfum að kafa dýpra, að uppsprettu þeirrar vanlíðanar sem brýst fram í ofbeldi. Enginn sem líður vel, hvort sem er fullorðinn eða barn, vopnast til að meiða aðra. Við verðum að vera sérstaklega vakandi fyrir líðan barna og geta brugðist við þegar grípa þarf til ráðstafana,“ sagði Halla í ávarpi sínu. Hitti Danakonung og tvær Danadrottningar Fyrsta opinbera ríkisheimsókn Höllu sem forseta var til Danmerkur í upphafi októbermánaðar. Þar tóku Friðrik tíundi Danakonungur og María drottning á móti forsetahjónunum. „Það er eiginlega eins og við höfum verið að hitta gamla vini. Við erum mjög þakklát fyrir þessa hlýju sem við skynjum allt í kring en sérstaklega gestrisnina frá konungshjónunum,“ sagði Halla í viðtali við fréttastofu meðan á heimsókninni stóð. Þá sagði Halla að það hefði komið henni skemmtilega á óvart þegar hún hitti Margréti Þórhildi, Danadrottningu. „Hún er stór kvenfyrirmynd mín og góð vinkona okkar fyrsta lýðræðislega kjörna kvenforseta Íslands, frúr Vigdísar Finnbogadóttur. Svo það var mjög gaman líkt og allt annað í heimsókninni. Þetta hefur verið ævintýri fyrir mig að vera hér,“ sagði Halla. Aðal umtalsefnið að ræðan væri á ensku og skórnir brúnir Halla hélt ræðu á hátíðarkvöldverði í Kristjánsborg í þessari heimsókn. Ræðan vakti athygli hér á landi af þeim sökum að Halla flutti hana nær einvörðungu á ensku. Bent var á að hún væri fyrst allra íslenskra forseta til að flytja ekki ræðu í sinni fyrstu ríkisheimsókn til Danmerkur á dönsku. Þar er reyndar Sveinn Björnsson undanskilinn því hann fór aldrei í opinbera heimsókn til Danmerkur. „Ég hélt ræðu fyrir danska þingið í gær á dönsku og var sagt að það hefði heppnast ágætlega þó ég væri auðvitað full efasemda um getu mína til að gera það. Ég get alveg talað dönskuna og hefði alveg getað flutt alla ræðuna á dönsku. Mér fannst skipta máli, af því að í herberginu var fólk sem hvorki skilur né talar dönsku, að hafa hana á þremur tungumálum og gefa öllum tækifæri til að tengja við hana,“ sagði Halla þegar hún var spurð út í þessa ákvörðun. Annað sem vakti athygli var að Halla skyldi hneigja sig fyrir Friðriki Danakonungi og að Björn hefði verið í brúnum skóm þegar hann hitti konungshjónin. Ragnheiður Ásta Sigurðardóttir, konungssinni sem fréttastofa ræddi við af þessu tilefni, sagði að með hneigingunni hefði Halla sýnt nýkrýndum konungi virðingu sína, sem hefði verið „mjög smart“. Þá virtist danska pressan ekki hafa kippt sér upp við skófatnað Björns. Þá sagði Halla að heimsókninni lokinni að áhuginn á skófatnaði Björns hefði komið Maríu drottningu á óvart. „Ég get sagt að það vakti athygli hjá mér, og jafnvel dönsku drottningunni, að umræða um brúna skó eiginmanns míns hefði verið mest lesna fréttin á Íslandi eftir dag þar sem margar aðrar innihaldsríkar fréttir urðu til,“ sagði Halla í Bakaríinu á Bylgjunni. Stjórnarslit, kosningar og nýársávarp Þann 13. október, þegar heimsókninni til Danmerkur var nýlokið, kom babb í bátinn. Bjarni Benediktsson, þáverandi forsætisráðherra, sagði ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, og Vinstri grænna lokið. Morguninn eftir fundaði Halla með Bjarna sem óskaði eftir að hún myndi rjúfa þing. Í kjölfarið fundaði Halla með formönnum allra flokka sem þá áttu sæti á þingi. Daginn eftir greindi Halla frá ákvörðun sinni um að fallast á beiðni Bjarna um þingrof og boðaði til kosninga sex vikum síðar. Þá bað hún ríkisstjórnina um að halda áfram þangað til sem starfsstjórn. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn féllust á það, en ekki Vinstri græn. Kosningarnar fóru fram 30. nóvember. Halla fundaði aftur með formönnunum tveimur dögum síðar, en þeim hafði þá fækkað um tvo þar sem Píratar og Vinstri grænar fengu ekki mann á þing. Degi síðar veitti Halla Kristrúnu Frostadóttur, formanni Samfylkingarinnar sem hlaut mest fylgi í kosningunum, umboð til stjórnarmyndunar. Hún myndaði í kjölfarið ríkisstjórn með Viðreisn og Flokki fólksins. Í fyrsta nýársávarpi sínu talaði Halla um það sem skref í átt að jafnrétti að þrjár konur, Kristrún, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Inga Sæland, hefðu leitt stjórnarmyndunarviðræður og myndað ríkisstjórn. Fór ekki til Auschwitz Hér á landi var nokkuð fjallað um minningarathöfn um helförina í Auschwitz sem fór fram í Póllandi í lok janúar í tilefni af því að áttatíu ár voru liðin frá frelsun útrýmingarbúðanna. Halla sótti ekki viðburðinn. Greint var frá því að minningarathöfnin hefði ekki hentað dagskrá Höllu. Rúv fjallaði um málið og sagðist hafa fengið þau svör að þegar minningarathöfnin hafi verið haldin hafi forsetinn verið heima á Bessastöðum. Samkvæmt stjórnartíðindum hafi hún hins vegar verið erlendis milli 17. janúar og komið heim 27. janúar, sama dag og minningarathöfnin fór fram. Svo kom fram að forsetahjónin hefðu verið í einkaferð erlendis. Ferðin var til Dóminíska lýðveldisins þar sem Björn nýtti tækifærið og tók upp myndband fyrir samfélagsmiðla um collagen sem hann framleiðir. View this post on Instagram A post shared by just björn (@justbjorncollagen) Í kjölfarið fékk Vísir þau svör að fjölskylduferð Höllu hefði spilað inn í ákvörðunina um að fara ekki til Auschwitz, en ekki haft úrslitaáhrif. Til að mynda hafi dagskrá forseta verið nokkuð bókuð. Umfang opinberra heimsókna sé slíkt að takmarka þurfi ferðir forseta erlendis. Ákvarðanir um þetta séu byggðar á því fjármagni og mannauði sem forsetaembættið ræður yfir. „Ekki þótti rými til að bæta við ferð til Póllands í lok janúar,“ sagði í svari til fréttastofu. Umboðsmaður Alþingis óskaði eftir upplýsingum frá skrifstofu forseta Íslands um fyrirkomulag upplýsingagjafar um málefni sem snerta forsetann. Seinna komst umboðsmaður að því að afgreiðsla á beiðnum fréttastofu RÚV hafi ekki verið fyllilega í samræmi við ákvæði upplýsingalaga. Fyrsta opinbera heimsóknin innanlands Halla og Björn héldu í fyrstu opinberu heimsókn þeirra innanlands í mars. Þá fóru þau til Hafnar í Hornafirði. Um var að ræða tveggja daga heimsókn með þéttri dagskrá þar sem þau dvöldu á Höfn en ferðuðust líka um Suðursveit og Öræfi. Þar heimsóttu þau ýmsar stofnanir og fyrirtæki. Á meðal þess sem var á dagskrá var hátíðarkvöldverður á veitingastaðnum Pakkhúsinu. Undirskriftin umtalaða Undirskrift Höllu var mikið til umfjöllunar í mars. Hún hafði skrifað undir „Halla Tomas“ á tónleikaskrá á 75 ára afmælistónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Vegna málsins ræddi Morgunblaðið við Guðrúnu Kvaran, prófessors emerita í íslensku við Háskóla Íslands, sem furðaði sig á undirskriftinni. „Mér finnst mjög mikilvægt að Íslendingar skrifi nöfn sín á eðlilegan hátt. Þá á hún nú ekki að skammast sín fyrir að vera dóttir einhvers, hún á bara að skrifa „Tómasdóttir“,“ sagði Guðrún. Dagur B. Eggertsson, þingmaður Samfylkingarinnar, setti umfjöllunina í samhengi við undirskrift Davíðs Oddssonar, ritstjóra Morgunblaðsins, þegar hann gegndi embætti seðlabankastjóra. Dagur túlkaði undirskrift Davíðs, sem hann birti mynd af, sem „Gmmtnnnnm“. Hélt ræðu á íslensku í annarri heimsókninni Halla fór í sína aðra opinberu heimsókn í apríl, nú til Noregs. Ríkjaheimsóknin þótti söguleg af þeim sökum að þar tóku á móti Höllu og Birni þrjár kynslóðir norsku konungsfjölskyldunnar. Þar sinnti jafnframt Ingiríður prinsessa sínu fyrsta opinbera embættisverki í ríkisheimsókn. Aftur sótti Halla hátíðarkvöldverð og í þetta skipti flutti hún ræðu á íslensku. „Ég ákvað þetta fyrir löngu. Því auðvitað er þetta tungan sem stendur næst þeirri tungu töluðum saman og eigum sameiginlega. Það ríkir á okkur ákveðin skylda og tækifæri til að halda því á lofti. Það er kannski algengara en fólk veit að í svona heimsóknum milli þjóða að þá tali þjóðhöfðinginn sína tungu. En það hefur ekki oft, skilst mér, gerst áður að okkar þjóðhöfðingjar hafi talað íslensku. Mér fannst skemmtilegt að gera það og því var gríðarlega vel tekið,“ sagði hún í samtali við fréttastofu. Til þess að allir myndu þó skilja ræðu hennar var hún aðgengileg veislugestum útprentuð á norsku. „Tungumálin okkar eru lík og það er mikilvægt að benda á það að þegar maður heldur ræður vill maður að fólk skilji sig. Í salnum voru allir gestir með ræðuna á norsku og náðu að fylgja nokkurn veginn á meðan ég talaði íslenskuna og fannst það afskaplega áhugavert,“ sagði Halla. „Þetta er góð leið til að lyfta okkar fallega tungumáli sem á allan rétt á því að vera á sviðinu eins og önnur.“ Þessi ræðuhöld vöktu þó líka athygli af öðrum ástæðum. Halla þurfti að gera stutt hlé á ræðu sinni vegna veikinda veislugests. Fram kom að umræddur veislugestur væri þó heill á húfi. „Pope Francis“ Frans páfi lést 88 ára gamall þann 21. apríl. Halla sendi frá sér samúðarkveðju vegna fráfalls hans á Facebook. Færsla hennar vakti helst athygli vegna þess að í henni kallaði hún hin andaða páfa „Pope Francis“. Færslunni var þó breytt skömmu síðar. Ansi margir lögðu orð í belg varðandi þessa færslu. Margir gagnrýndu orðaval forsetans eða gerðu grín að því. „Sko. Ég er sérstaklega umburðarlyndur maður. En þetta hefði President Tomas nú alveg getað gert betur. Hún hefði til dæmis getað syrgt fráfall „Franciscus Papa“ ef henni er af einhverjum ástæðum illa við að nota hið íslenska „Frans páfa“. Hvorki páfinn né páfastóll hafa neitt sérstakt með enska tungu að gera,“ skrifaði til dæmis Illugi Jökulsson fjölmiðlamaður á Facebook. Aðrir komu Höllu til varnar, líkt og Vigdís Grímsdóttir rithöfundur. „Halla ræður sínum skrifum, held að hneykslunin segi mest um þá sem heilaga telja sig.“ Halla tjáði sig um málið á Facebook degi síðar. Þar viðurkenndi hún að henni hefði brugðist bogalistin og útskýrði hvað hefði orsakað það. „Ég var að brúna kartöflur með páskalambinu um leið og ég var að skrifa þessa frægu samfélagsmiðlafærslu. Ætlun mín var að tengja við opinbera síðu Frans páfa á Instagram svo ég sló inn Pope Francis og fékk upp @franciscus. Ég bað eiginmanninn (sem var að taka út hrygginn) að kanna hvort um rétta síðu væri að ræða á meðan ég kláraði kartöflurnar og færsluna í nokkrum flýti áður en mamma kom í mat. Í látunum fór að-merkið (@) forgörðum og því fór sem fór,“ skrifaði Halla. „Á því axla ég fulla ábyrgð og breytti færslunni að loknum hádegisverði þegar mér hafði verið bent á mín mistök. Ég þakka ykkur sem standið vaktina og minnið okkur öll á mikilvægi þess að við stöndum saman vörð um okkar einstöku tungu. Ég er með ykkur í liði. Ég get ekki lofað ykkur því að ég geri ekki fleiri mistök, ég er mannleg og vil vera það því ég trúi að af mistökunum lærum við mest og minnst lærum við þegar við teljum sjálfum okkur og öðrum trú um að við vitum allt best.“ Hitti Biden í útförinni Halla sótti útför páfans í Páfagarði ásamt tveimur öðrum fulltrúum Íslands, Þorgerði Katrínu utanríkisráðherra og Einari Gunnarssyni sendiherra. Þar voru þau ásamt fjölda annarra þjóðarleiðtoga, en Halla birti til að mynd af sér ásamt Joe Biden, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, á samfélagsmiðlum. Fékk lánuð gleraugu Aftur fóru Halla og Björn í opinbera heimsókn í byrjun maímánaðar, í þetta skiptið til Svíþjóðar. Þar tóku Karl Gústaf sextándi konungur og Silvía Svíadrottning á móti þeim. Atvik sem átti sér stað við móttökuathöfnina vakti athygli í sænsku pressunni. Það mun hafa verið vindasamt í Stokkhólmi þennan dag og fauk lítill íslenskur fáni að Höllu og Karli Gústafi. Konungurinn, sem er 79 ára gamall, er sagður hafa brugðist fljótlega við, beygt sig niður og tekið upp fánann, og svo rétt Höllu hann. Hún hafi svo veifað fánanum fyrir framan viðstadda. Halla tekur við fánanum sem Karl Gústaf reif upp af jörðinni.Leifur Rögnvaldsson Einnig greindu sænskir fjölmiðlar frá því að Halla hafi týnt lesgleraugum sínum áður en hún hélt ræðu meðan á heimsókninni stóð. Hún hafi því fengið lánuð gleraugu frá einum sem var viðstaddur. Hennar gleraugu hafi þó fundist áður eða á meðan hún hélt ræðuna. Engu að síður hafi Halla þakkað fyrir lánið og sagt það gott dæmi um vináttu Íslendinga og Svía. Hitti eina keisara heims Forsetahjónin skelltu sér síðan til Japan, á heimssýninguna í Osaka í lok maí. Ísland tók þátt í samnorrænum sýningarskála og féll úthlutaðan þjóðardaginn 29. maí. Þann dag var Halla heiðursgestur. Þess má geta að þann sama dag fögnuðu Halla og Björn 21. árs brúðkaupsafmæli. Halla nýtti Japansferðina og kíkti líka til Tókýó og hitti eina núlifandi keisara heims, Naruhito Japanskeisara, og Shigeru Ishiba, forsætisráðherra Japan. „Mikill heiður að hitta keisara og forsætisráðherra Japans og ræða meðal annars menningartengsl, jafnréttismál, jarðvarma, heilsu hafsins og frið,“ skrifaði hún á Facebook. Halla Tómasdóttir og Naruhito keisari.Facebook/Halla Tómasdóttir Breyttu áralangri hefð 17. júní Skömmu fyrir þjóðhátíðardag Íslendinga, 17. júní var greint frá því að Halla myndi flytja hátíðarávarp á Austurvelli í stað Kristrúnar forsætisráðherra. Allt fram til þess hafði forsætisráðherra flutt þetta ávarp. Guðni Th. Jóhannesson, forveri Höllu, hafði lagt til í kveðjuávarpi sínu til Alþingis, að þessari hefð yrði breytt og forsetinn myndi flytja ávarpið í stað forsætisráðherra. Bjarni, forveri Kristrúnar, tók ekki undir það og vísaði til þess að mjög löng hefð væri fyrir því að forsætisráðherra flytti ávarpið. Kristrún og Halla ákváðu hins vegar að verða við ósk Guðna síðastliðinn þjóðhátíðardag. Kristrún og Halla við styttuna af Jóni Sigurðssyni.Vísir/Viktor Halla fór um víðan völl í ávarpinu, og ræddi til dæmis um símanotkun Íslendinga. „Sjálf ætla ég að ganga á undan með góðu fordæmi og fara í sumarfrí frá Facebook og almennt ætla ég að fækka stundum á samfélagsmiðlum og vona að sem flestir skólar og fjölskyldur fari inn í sumarið og haustið með einhver skynsamleg mörk í kringum þá rænuþjófa. Ég ætla frekar að fjölga samtölum í raunheimum, taka þátt í og standa fyrir fleiri samtölum með von um að á næsta ári höldum við Þjóðfund og ræðum þá framtíð sem bíður barna okkar.“ Halla á Nýja Íslandi á tímamótatímum Nú þegar ár er liðið frá því að Halla tók við forsetaembættinu er hún stödd, ásamt Birni, á Nýja Íslandi í Kanada. Þar er öðrum tímamótum fagnað því 150 ár eru liðin frá því að fyrsti stóri Íslendingahópurinn fór vestur um haf, til Manitoba og stofnaði Nýja Ísland. Þar mun Halla koma víða við. Hún mun til að mynda taka þátt í skrúðgöngu og flytja hátíðarræðu á Íslendingadeginum 4. ágúst.