Erlent

Tollar á vörur frá Ís­landi verða 15 prósent sam­kvæmt forsetatilskipun

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hringlandaháttur Trump í tollamálum hefur skapað verulega óvissu og enn er ríkjum gefin ákveðinn frestur til að fá tollana „leiðrétta“.
Hringlandaháttur Trump í tollamálum hefur skapað verulega óvissu og enn er ríkjum gefin ákveðinn frestur til að fá tollana „leiðrétta“. Getty/Christopher Furlong

Donald Trump Bandaríkjaforseti undirritaði forsetatilskipun í gær þar sem 10 til 41 prósent tollar voru lagðir á tugi viðskiptaríkja landins. Samkvæmt listanum verða tollar á vörur frá Íslandi fimmtán prósent en áður stóð til að þeir yrðu tíu prósent.

Forsendur hækkunarinnar liggja ekki fyrir sem stendur.

Flestir tollarnir taka gildi eftir sjö daga, en ekki í dag eins og áður stóð til. Trump hefur hins vegar veitt Mexíkó 90 daga framlengingu. Þá vekur athygli að tollar á vörur frá Kanada verða 35 prósent, þrátt fyrir að áður hefði verið tilkynnt að þeir yrðu 25 prósent.

Samkvæmt tilskipuninni er ástæða hækkunarinnar á Kanada sú að stjórnvöld þar í landi hafi ekki reynst samvinnufús varðandi meint flæði fentanýls yfir landamærin en það hefur verið stórkostlega ýkt af hálfu Bandaríkjastjórnar.

Trump hafði hins vegar hótað Kanada að það yrði erfitt fyrir ríkin að ná tollasamningum fyrst stjórnvöld í Ottawa hefðu ákveðið að viðurkenna Palestínu.

Tollar á vörur frá Suður-Afríku verða 30 prósent, á vörur frá Indland 25 prósent og á vörur frá Taívan 20 prósent. Tollar á vörur frá Sviss verða 39 prósent og þá verða þeir einnig háir fyrir nokkur af fátækustu ríkjum heims; 40 prósent á vörur frá Laos og Mjanmar, 30 prósent á Líbíu og 20 prósent á Sri Lanka.

Á vefsíðu Guardian má finna lista yfir ríkin sem munu sæta nýjum tollum eftir sjö daga en þau ríki sem ekki eru á listanum sæta 10 prósenta toll.

Nokkur lækkun varð á mörkuðum í Asíu í kjölfar fregnanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×