Fótbolti

Þvælu að starf Ole Gunnar sé í hættu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Solskjær tók sér virkilega langa pásu áður en hann færði sig yfir til Tyrklands.
Solskjær tók sér virkilega langa pásu áður en hann færði sig yfir til Tyrklands. EPA/£ukasz Gpgulski

Starf Ole Gunnar Solskjær, þjálfara Beşiktaş í efstu deild tyrkneska fótboltans, er ekki í hættu. Félagið sjálft hefur gefið út yfirlýsingu þess efnis.

Samfélagsmiðlaskúbbarinn Fabrizio Romano sagði nýverið að Nuri Şahin væri efstur á blaði færi svo að Besiktas myndi segja Solskjær upp. Norðmaðurinn hafði verið í langri pásu eftir að vera rekinn frá Manchester United þann 21. nóvember 2021 þegar hann tók við Besiktas í janúar á þessu ári.

Liðið var í 6. sæti þegar Solskjær labbaði inn um dyrnar en honum tókst að lyfta liðinu upp í 4. sæti og þar með í Evrópukeppni. Raunar var Beşiktaş aðeins tveimur stigum á eftir Samsunspor sem endaði óvænt sæti ofar. 

Lærisveinar Solskjær voru hins vegar aldrei nálægt því að ná toppliðunum tveimur sem voru í algjörum sérflokki. Deildarkeppni komandi tímabils er ekki enn hafin en sannfærandi töp gegn Shakhtar Donetsk í forkeppni Evrópudeildarinnar kveiktu á þeim orðrómi að starf Solskjær væri í hættu.

Stökk Romano á þann orðróm og orðaði hinn reynslulitla Sahin við starfið. Nú hefur félagið sjálft gefið út yfirlýsingu þar sem það segir ekkert til í því að starf Solskjær sé í hættu.

Næstu leikir Beşiktaş eru gegn St. Patrick´s Athletic frá Írlandi í undankeppni Sambandsdeild Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×