Innlent

Fundur hafinn í utan­ríkis­mála­nefnd

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Frá upphafi fundar utanríkismálanefndar í morgun.
Frá upphafi fundar utanríkismálanefndar í morgun. Vísir/Sigurjón

Fundur hófst í utanríkismálanefnd Alþingis nú klukkan tíu þar sem tollahækkanir Bandaríkjastjórnar á íslenskar vörur og fyrirhugaðar verndaraðgerðir ESB vegna innflutnings á járnblendi eru til umræðu. Tollar Bandaríkjastjórnar tóku gildi í dag og verður nú fimmtán prósenta tollur lagður á útfluttar vörur frá Íslandi til Bandaríkjanna.

Það var Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar og formaður utnaríkismálanefndar sem boðaði til fundarins.

Sjá einnig: Trump-tollarnir hafa tekið gildi

„Tilgangurinn er einfaldlega að halda nefndinni upplýstri í ljósi þeirrar stöðu sem komin er upp í heimi alþjóðaviðskipta. Annars vegar varðandi þessar verndaraðgerðir sem Evrópusambandið hefur boðað á járnblendi, sem snertir auðvitað mjög okkar hagsmuni, og hins vegar þá einhliða ákvörðun Bandaríkjastjórnar um að hækka tolla á íslenskan innflutning,“ segir Pawel

Fulltrúar frá viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins verða gestir á fundi nefndarinnar og munu fara yfir helstu atriði með nefndarmönnum að sögn Pawels.

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gerði athugasemd við það í samtali við mbl.is í gær að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra verði ekki á fundinum.

Var henni boðið á fundinn?

„Það er ég sem boða til þessa fundar og mér þótti rétt að hafa uppleggið svona að þessu sinni. En ég er nokkuð viss um að það verða haldnir fleiri fundir um þessi atriði, bæði með ráðherra og líklega með hagaðilum líka,“ svarar Pawel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×