Sport

Toppurinn á ferlinum hingað til en getur gert betur

Aron Guðmundsson skrifar
Arnar Pétursson er nýr Íslandsmethafi í 100 kílómetra hlaupi. Hann gerði sér lítið fyrir og setti það met í sínu fyrsta 100 kílómetrahlaupi og stefnir að á hlaupa slíkt hlaup aftur.
Arnar Pétursson er nýr Íslandsmethafi í 100 kílómetra hlaupi. Hann gerði sér lítið fyrir og setti það met í sínu fyrsta 100 kílómetrahlaupi og stefnir að á hlaupa slíkt hlaup aftur. Vísir/Sigurjón

Ofur­hlauparinn Arnar Péturs­son gerði sér lítið fyrir og setti nýtt Ís­lands­met í hundrað kíló­metra hlaupi um nýliðna helgi. Af­rekið segir Arnar að sé toppurinn á ferlinum hingað til. 

Þetta var í fyrsta sinn sem Arnar, sem hefur um ára­bil verið einn af okkar fremstu hlaupurum, hleypur hundrað kíló­metra og árangurinn magnaður en kíló­metrana hundrað í Rauða­vatni Ultra hljóp hann á 6 klukku­stundum og rétt rúmum fjörutíu og fimm mínútum.

„And­lega er þetta bara stórt mark­mið að ná og ótrú­lega gaman að hafa náð að klára þetta og það svona vel,“ segir Arnar í sam­tali við íþrótta­deild. „Þetta er níundi besti tíminn í heiminum í ár, ég er á 4:03 meðalpace-i með kíló­meterinn sem er 14,8 til 15 í hraða á hlaupa­brettinu. Um fjörutíu mínútur cirka með tíu kíló­metra og geri það tíu sinnum í röð. Það var mjög gaman að ná því.“

Hann er hins vegar á því að geta gert betur og er ljóst að þetta er ekki hans fyrsta og eina hundrað kíló­metra hlaup.

„Ég veit að ég get hlaupið þetta hraðar og var búinn að ákveða það fyrir þetta hlaup að ég myndi hlaupa annað hundrað kíló­metra hlaup. Besta æfingin er að hlaupa svona langt hlaup og sem þjálfari sjálfs míns er eigin­lega vont ef ég nýti ekki þessa góðu æfingu til að hlaupa hundrað kíló­metra hlaup með reynsluna af því í bankanum. Ég mun því alveg hundrað pró­sent hlaupa annað hundrað kíló­metra hlaup örugg­lega á næsta ári.“

Stjörnurnar röðuðust rétt upp

Það var góð til­finningin sem sagði Arnari að skrá sig til leiks í Rauða­vatn Ultra sem var haldið í fyrsta sinn núna um síðastliðna helgi.

„Þetta eru leiðbeiningar sem maður gefur líka fólki sem maður hefur verið að þjálfa og eru á þær leið að ef maður fær svona kitl í magann, vegna ein­hvers hlaups eða áskorun, þá ætti maður að ein­beita sér að því. Þegar að þetta hlaup kom inn á síðasta ári, Ís­landsmót á vottaðri braut, þá fékk ég eitt­hvað kitl í magann. Þetta hlaup fer fram í kringum vatn og mér skemmti­legasta um­hverfið til að hlaupa í að vera með vatn öðru megin við mig og skóg­lendi hinu megin. Stjörnurnar röðuðust bara rétt og ég held að ég sé hlut­falls­lega mjög góður í þessari vega­lengd.

Æfði sig með því að hlaupa á ættarmót

Ís­lands­meistara­titlar Arnars hlaupa á mörgum tugum og er hann sí­fellt á höttunum eftir nýjum og ferskum áskorunum.

„Ég var að taka lengri æfingar en ég hef gert áður, hljóp til að mynda fimmtíu kíló­metra æfingar. Skemmti­legasta æfingin hins vegar, og ég var meira stressaðri fyrir henni heldur en hlaupinu sjálfu, var þegar að ég ákvað að hlaupa frá Egils­stöðum á Borgar­fjörð Eystri á ættar­mót.“

Um var að ræða cirka sex­tíu og fimm kíló­metra leið með tölu­verðri hækkun sem Arnar hljóp í miklum mót­vindi lengst af og upp­lifði al­gjöra bugun en móttökurnar sem hann fékk frá skyld­mennum sínum þá kynntu undir bál, bók­staf­lega.

„Ég kem hlaupandi inn á Borgar­fjörð Eystri, þar er brenna og 200 ætt­menni sem syngja ættar­lagið okkar. Þetta var hlaup sem ég hljóp svolítið til heiðurs hlaupurum í ættinni. Afi minn, Jón Andrés­son var mikill hlaupari á sínum tíma sem og Skúli bróðir hans. Margir hlauparar í ættinni og því átti þetta vel við og það var eigin­lega extra erfitt að halda aftur af til­finningunum þegar að maður kláraði það hlaup. Það var því gott að leyfa þeim að koma út þegar að maður kláraði hundrað kíló­metrana núna við Rauða­vatn því það er best í heimi, þegar að maður klárar svona erfiða áskorun, að fá fjöl­skylduna í fangið og láta allt gossa. Það er ekki hægt að toppa það.“

Þakklátur fyrir baklandið

Til­finningin góð en Arnar á óklárað verk fyrir höndum er kemur að maraþon­hlaupum.

„Ég var í öllum yngri lands­liðunum í körfu­bolta en hætti í körfu­boltanum fyrir hlaupin af því að mig langaði að ná ólympíulág­markinu í maraþoni sem var á þeim tíma tvær klukku­stundir og nítján mínútur.

Ég á núna best tvær klukku­stundir, tuttugu mínútur og fjórar sekúndur og langar að klára það en þetta er alveg klár­lega eitt­hvað sem ég mun gera aftur á ferlinum. Þú hleypur fyrst svona langt hlaup til þess að geta svo hlaupið hlaup nú­mer tvö. Eftir hlaup nú­mer tvö sérðu hvort þig langi til þess að hlaupa hlaup nú­mer þrjú, fjögur, fimm eða sex.

Þetta var alla­vegana með skemmti­legri hlaupum sem ég hef hlaupið þrátt fyrir að þetta hafi verið þrjátíu og tveir hringir. Maður var alltaf að taka fram úr fólki, alltaf að sjá fjöl­skyldu og vini, alltaf að fá peppið. Það var miklu skemmti­legra heldur en að fara í hlaup þar sem að þú byrjar og ert svo einn í marga klukkutíma.

Arnar nýtur góðs af því og er þakklátur fyrir að eiga fjölmennt og gott bakland sem hann getur stólað á.Vísir/Aðsend mynd

Og það er greini­legt að þetta af­rek skiptir Arnar, sem á fjöldann allan af Ís­lands­meistara­titlum og metum á feril­skránni, miklu máli.

„Ég myndi eigin­lega segja að þetta sé toppurinn á ferlinum hingað til. Það er svo mikill munur að vera með tvö börn og að æfa núna í júlí, það er leikskóla­frí, extra álag í því að láta allt ganga upp. Bak­landið sem maður er með báðu megin, tengda­fjöl­skylda og fjöl­skylda mín, þetta er ekki eins manns verk­efni og skiptir mjög miklu máli.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×