Erlent

Kýr­skýrt að að­eins Selenskíj geti samið um land­svæði

Kjartan Kjartansson skrifar
Selenskíj (t.v.) og Merz kanslari (t.h.) ræða við fréttamenn eftir fjarfund þeirra og annarra evrópskra leiðtoga með Bandaríkjaforseta í dag.
Selenskíj (t.v.) og Merz kanslari (t.h.) ræða við fréttamenn eftir fjarfund þeirra og annarra evrópskra leiðtoga með Bandaríkjaforseta í dag. AP/John MacDougal

Forseti Frakklands segir það hafa verið gert kýrskýrt að aðeins Volodýmýr Selenskíj, forseti Úkraínu, hafi umboð til að ræða möguleg skipti á landsvæði við Rússa á fundi með Bandaríkjaforseta. Selenskíj sagðist jákvæður að fundi loknum.

Leiðtogar Evrópuríkja og Selenskíj áttu fjarfund með Trump og J.D. Vance, varaforseta hans, í dag inni á milli funda í eigin ranni. Tilefnið var yfirvofandi fundur Trump og Vladímírs Pútín, forseta Rússlands, í Anchorage í Alaska um stríðsrekstur Rússa í Úkraínu á föstudag.

Friedrich Merz, kanslari Þýskalands, sagði eftir fundinn að samræðurnar við Bandaríkjamennina hefðu verið uppbyggilegar. Trump deildi „að miklu leyti“ afstöðu evrópskra leiðtoga til Úkraínu.

„Grundvallaröryggishagsmunir Evrópu og Úkraínu verða að vera tryggðir í Alaska. Það eru skilaboðin sem við sem Evrópubúar færðum Trump forseta í dag,“ sagði Merz á blaðamannafundi með Selenskíj sér við hlið.

Trump hefur sagt að Úkraínumenn gætu þurft að gefa upp á bátinn landsvæði til Rússa til þess að semja um vopnahlé. 

Macron Frakklandsforseti sagði að Trump hefði verið algerlega skýr á fundinum um að ekki yrði samið um úkraínsk landsvæði án aðkomu Úkraínumanna sjálfra. Ljóst væri að Trump vildi ná samkomulagi um vopnahlé á fundinum með Pútín.

Trump stefndi jafnframt á að halda þríhliða fund á næstunni þangað sem Selenskíj yrði einnig boðið.

Pútín að gabba

Breska ríkisútvarpið hefur eftir Selenskíj að það færi eftir árangri samningaviðræðna undir hvaða kringumstæðum hann væri tilbúinn að eftirláta Pútín úkraínskt landsvæði. Hann væri afar jákvæður eftir fundinn. Trump hefði sagst styðja Úkraínu og ætlaði að vera í samband við Selenskíj eftir fundinn með Pútín á föstudag.

Sagðist Selenskíj ennfremur hafa varað Trump við því að Pútín væri að blekkja um að refsiaðgerðir vestrænna ríkja hefðu engin áhrif á Rússa. Þvert á móti væru þær þungt högg fyrir stríðsvél Pútíns. Rússar sæktu nú fram á öllum vígstöðvum í aðdraganda leiðtogafundarins til þess að sýna fram á að þeir gætu hernumið alla Úkraínu.

Að loknum fundinum með Trump ætluðu fulltrúar svokallaðra viljugra þjóða, þeirra sem eru tilbúnar að tryggja öryggi Úkraínu þegar og ef semst um vopnahlé, að funda í sínum ranni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×