Ákvörðun peningastefnunefndar í morgun að halda meginvöxtum Seðlabankans óbreyttum í 7,5 prósent kemur í kjölfar þess að nefndin hafði áður lækkað vextina um samanlagt 175 punkta á síðustu fimm fundum sínum frá því í október í fyrra. Lítil spenna var fyrir ákvörðun nefndarinnar en markaðsaðilar og greiningardeildir allra bankanna höfðu gert ráð fyrir óbreyttum vöxtum að þessu sinni.
Allir fimm nefndarmenn peningastefnunefndar studdu ákvörðun um að halda vöxtum óbreyttum í 7,5 prósent.
Verðbólgan mælist núna 4 prósent, borið saman við 3,8 prósent þegar nefndin kom síðast saman seint í maímánuði, en fram kemur í yfirlýsingu hennar að samkvæmt nýbirtri spá Seðlabankans muni verðbólgan fara hækkandi ná nýjan leik á komandi mánuðum. Þegar komið verður fram á næsta ár er gert ráð fyrir að verðbólgan fari að hjaðna en óvissa um verðbólguhorfurnar, að sögn peningastefnunefndar, er áfram mikil.
Í þjóðhagsspá Seðlabankans er áætlað að verðbólgan verði að meðaltali um 4,4 prósent á fyrsta fjórðungi næsta árs og verði ekki komin undir þrjú prósent fyrr en í ársbyrjun 2027.
„Hægt hefur á vexti innlendrar eftirspurnar í takt við þétt taumhald peningastefnunnar. Spennan í þjóðarbúinu hefur því minnkað eins og sjá má á hægari umsvifum á húsnæðis- og vinnumarkaði. Enn virðist þó vera nokkur þróttur í efnahagsumsvifum, laun hafa hækkað mikið og verðbólguvæntingar mælast enn yfir markmiði,“ segir jafnframt í yfirlýsingunni.

Nýjar mælingar sýna að talsvert er að draga úr hækkunum á íbúðamarkaði, einkum allra síðustu mánuði, en undanfarna tólf mánuði hefur fasteignaverðið hækkað um 4,2 prósent, rétt umfram verðbólgu. Launavísitalan er hins vegar upp um 8,2 prósent yfir sama tímabil.
Útlit er fyrir meiri hagvöxt á þessu ári en áður var talið samkvæmt þjóðhagsspá bankans frá því í maí, þegar gert var ráð fyrir eins prósenta vexti, en í uppfærðri spá bankans er hagvöxturinn fyrir árið 2025 núna áætlaður 2,3 prósent.
„Þótt verðbólga hafi hjaðnað og verðbólguvæntingar lækkað síðustu misseri er enn nokkur verðbólguþrýstingur til staðar,“ segir í yfirlýsingu nefndarinnar í morgun. Þá bætir hún við að þær aðstæður hafi því ekki skapast að hægt sé að slaka á núverandi raunvaxtaaðhaldi peningastefnunnar – en það hefur haldist á bilinu um 3,5 til 4 prósent frá því í mars í fyrra.

„Ljóst er að frekari skref til lækkunar vaxta eru háð því að verðbólga færist nær 2,5 prósenta markmiði bankans,“ undirstrikar peningastefnunefndin jafnframt í yfirlýsingunni. Það er sama leiðsögn og hún gaf út eftir síðustu vaxtaákvörðun í maímánuði.
Þá er að lokum tekið fram, líkt og áður, að mótun peningastefnunnar næstu misseri muin sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.