Viðskipti innlent

Ó­sáttir með á­kvörðun peninga­stefnu­nefndar

Bjarki Sigurðsson skrifar
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness (t.h), og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness (t.h), og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. Vísir/Vilhelm

Framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins er afar ósáttur með ákvörðun peningastefnunefndar. Formaður Verkalýðsfélags Akraness segir hlutina þróast í ranga átt. 

Þrátt fyrir að ákvörðun peningastefnunefndar hafi komið fæstum á óvart eru margir afar ósáttir við hana. Það að vextir séu sjö og hálft prósent og verðbólga fjögur prósent þýðir að raunstýrivextir séu þrjú og hálft prósent, sem er talsvert hærra en í flestum nágrannaríkjum Íslands.

Hefur áhyggjur

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir aðhaldsstig peningastefnunefndar vera of hátt.

„Við erum að sjá það að atvinnuleysi fer vaxandi. Það hefur hækkað miðað við síðustu ár. Við sjáum það að í iðnaði er launþegum að fækka. Þannig fyrirtækin eru að halda að sér höndum. Það kemur fram í umsvifum og öðru. Við höfum áhyggjur af þessu,“ segir Sigurður.

Byggja meira

Húsnæðismarkaðurinn sé sérstaklega á slæmum stað og það þurfi að byggja fleiri íbúðir.

„Ríkið þarf einhvern veginn að hvetja til þess, en aðgerðir þeirra hafa því miður verið þannig á undanförnum árum að frekar letja til nýrra íbúðauppbygginga,“ segir Sigurður. 

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segist hafa viljað sjá vextina lækka.

„Þá liggur algjörlega fyrir að hár fjármagnskostnaður í þyngir fyrirtækjum, eins og í verslun og þjónustu. Og hvað gera fyrirtækin þegar þau eru með háan fjármagnskostnað? Jú, þau hljóta að varpa því út í verðlagið, alveg eins og gert er þegar laun eru hækkuð. Það hljóta að gilda sömu lögmál. Þetta er bara ekki að virka eins og það ætti að gera. Því miður,“ segir Vilhjálmur.

Erum ekki á réttri leið

Hann vill sterkara aðhald frá ríki og sveitarfélögum.

„Við erum ekki á réttri leið, ég tala nú ekki um þegar Seðlabankinn spáir því að jafnvel muni verðbólgan síga upp á við en ekki niður á við á næstu mánuðum,“ segir Vilhjálmur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×