Fótbolti

Segir slags­málin í klefanum hafa verið of­beldis­full og ofsa­fenginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Adrien Rabiot og Jonathan Rowe fóru að slást í klefanum og spila ekki aftur fyrir Marseille.
Adrien Rabiot og Jonathan Rowe fóru að slást í klefanum og spila ekki aftur fyrir Marseille. EPA/Enric Fontcuberta/Guillaume Horcajuelo

Franska fótboltafélagið Marseille setti tvo af leikmönnum sínum óvænt á sölulista eftir uppákomu í búningsklefa liðsins eftir tap í fyrstu umferð frönsku deildarinnar.

Leikmennirnir sem um ræðir eru franski miðjumaðurinn Adrien Rabiot og enski vængmaðurinn Jonathan Rowe. Þeir hafa báðir spilað sinn síðasta leik fyrir Marseille.

Þetta kom til vegna þess að þeir fóru að slást í búningsklefanum eftir svekkjandi tap á móti Stade Rennais.

Pablo Longoria, forseti Marseille, segir félagið ekki geta gert neitt annað í stöðunni. Hann lýsti slagsmálum Rabiot og Rowe sem ofbeldisfullum og ofsafengnum.

„Það sem gerðist þarna var mjög alvarlegt og mjög ofbeldisfullt. Ég hef aldrei séð svona áður,“ sagði Pablo Longoria við AFP.

„Við urðum að taka ákvörðun áður en þetta varð að einhverju miklu stærra máli. Við sættum okkur ekki við svona hegðun hjá okkar fótboltafélagi ekki frekar en nokkur önnur samtök myndu gera,“ sagði Longoria.

Marseille var manni fleiri í klukkutíma í leiknum en tapaði samt. Það sauð heldur betur upp úr í klefanum en mikill aldurs- og reynslumunur er á þessum tveimur leikmönnum.

Adrien Rabiot er þrítugur franskur miðjumaður og hefur verið hjá Marseille frá 2024. Hann spilaði áður með Paris Saint-Germain og Juventus og hefur spilað 53 A-landsleiki fyrir Frakka.

Jonathan Rowe er 22 ára enskur vængmaður sem Marseille er nýbúið að kaupa frá Norwich City. Hann hefur skorað 3 mörk í 10 leikjum fyrir enska 21 árs landsliðið. Rowe kom fyrst á láni á síðustu leiktíð en Marseille keypti hann eftir tímabilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×