Innlent

Há­skólinn í stað Hótel Sögu sem heyrir sögunni til

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti menntavísindasviðs Háskóla Íslands.
Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti menntavísindasviðs Háskóla Íslands. vísir/bjarni

Forseti menntavísindasviðs Hí segir það gjörbyltingu fyrir starfsfólk og nemendur sviðsins að sameinast undir einu þaki á háskólasvæðinu eftir að hafa verið á víð og dreif. Fréttastofa fékk forskot á sæluna og kíkti í heimsókn í Hótel Sögu.

Innan skamms mun öll kennsla menntavísindasviðs fara fram í þessari sögufrægu bygginu sem var áður kennd við Hótel Sögu. Um er að ræða mikinn áfanga en ríkið festi kaup á Hótel Sögu í samvinnu við Félagsstofnun stúdenta árið 2022 en síðan þá hefur staðið yfir vinna við að færa starfsemi sviðsins og undirbúa Sögu undir nýtt hlutverk.

Hér fyrir neðan má berja breytingar á Hótel Sögu augum. Hótelherbergjum hefur verið breytt í kennslustofur og vinnurými kennara, skrifstofum Bændasamtakanna breytt í kennslurými þar sem nemendum er kennt að kenna yngri börnum í leikskóla og grunnskóla og þá verður Súlnasalurinn sögufrægi nýttur sem lesrými og vinnurými fyrir nemendur. 

Í norðurhluta byggingarinnar þar sem áður fyrr voru haldnar ráðstefnur og aðrir viðburðir er kennsla hafin og á hæðunum fyrir ofan eru nemendaíbúðir frá Félagsstofnun stúdenta.

Ekki hefur þó enn fengist starfsleyfi fyrir starfsemi í suðurálmu hússins en Umhverfis og orkustofnun neitaði að veita bráðabirgðaleyfi á dögunum þar sem húsnæðið væri ekki tilbúið. Gripið hefur verið til ráðstafanna vegna þessa en reiknað er með leyfi á næstu dögum. Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti menntavísindasviðs Háskóla Íslands, fagnar því að það sjái fyrir endann á framkvæmdum.

„Bæði erum við að nota aðrar byggingar á svæðinu eins og ég sagði áðan. Síðan erum við að grípa til þess að hittast í netheimum. Við erum komin inn í húsið að hluta og bíðum spennt eftir því að opna dyrnar í næstu viku fyrir nemendur okkar. Það verður gleðistund.“

Um langþráða stund sé að ræða.

„Við erum í raun og veru búin að bíða í 17 ár, frá því að menntavísindasviðið varð til og kennaraháskóli Íslands sameinaðist Háskóla Íslands. Þetta er náttúrulega bara gjörbylting fyrir nemendur okkar sem núna fá miklu meira aðgengi að þjónustudeildum háskólans og ekki síður þessu gróskumikla félagsstarfi stúdenta.“

Það sé ekki einfalt mál að umbreyta hóteli í háskóla en öll rými byggingarinnar munu koma til með að vera nýtt. Heildarkostnaður við kaup og breytingar nemur um 12,7 milljörðum króna.

„Það er eiginlega magnað að sjá hvernig hefur gengið að breyta hóteli í háskóla. Þetta er náttúrulega glæsileg bygging sem á sér stað í hjörtum allra landsmanna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×