Körfubolti

Mætti út með stálplötu í hálsinum: „Reyni að öskra eitt­hvað“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Haukur Helgi Pálsson er glaður að hafa komist út eftir vonbrigðin sem fylgdu meiðslunum. Hlutverk hans er á eilitlu reiki en hann nýtur þess vel.
Haukur Helgi Pálsson er glaður að hafa komist út eftir vonbrigðin sem fylgdu meiðslunum. Hlutverk hans er á eilitlu reiki en hann nýtur þess vel. Vísir/Hulda Margrét

Haukur Helgi Pálsson er stór hluti af hópi og starfsteymi íslenska karlalandsliðsins á EM í körfubolta þrátt fyrir að hafa hrökklast úr hópnum skömmu fyrir mót. Hlutverk hans er þó á reiki.

Haukur Helgi brákaðist á barka í aðdraganda mótsins og þurfti að undirgangast aðgerð á meðan strákarnir héldu út á mótið.

„Aðgerðin gekk vel og ég er sáttur að þetta sé búið. Núna getur maður haldið áfram. Ég er með þennan myndarlega skurð og stálplötu og skrúfur sem að halda þessu öllu á sínum stað,“ segir Haukur sem hefur þó ekki lent í vandræðum með málmleitartæki hingað til.

Röddin sé þá að koma til.

„Það heyrist aðeins betur í mér. Maður er að reyna að öskra eitthvað á bekknum þarna en heyrist ekki alltaf nógu vel. Þetta er allt að koma,“ segir Haukur léttur.

„Maður er hluti af þessu en bara í öðruvísi hlutverki. Ég er mjög sáttur að hafa fengið að koma og vera með strákunum í því.“

En er ekki erfitt að sitja á hliðarlínunni? Sér í lagi þegar illa gengur líkt og gegn Belgum?

„Ég held að allt íþróttafólk og keppnisfólk heldur að það myndi gera meira gagn inni á vellinum heldur en ekki. En þeir voru bara geggjaðir. Þeir gerðu vel sem voru og erfitt að segja hvað hefði gerst. Þeir hafa verið í leik allan tímann gegn öllum liðunum. Maður er ekkert eðlilega stoltur af þeim,“ segir Haukur Helgi.

Aðspurður um hlutverk sitt segir Haukur það vera á eilitlu reiki.

„Þetta er öðruvísi. Ég veit það eiginlega ekki sjálfur. Maður er mitt á milli að vera aðstoðar, aðstoðar, aðstoðarþjálfari og aðstoðarleikmaður. Maður er brjálaður yfir einhverju þarna inni á en á sama tíma að reyna að halda haus og koma með punkta um það sem maður sér. Þetta er allt annað en venjulega,“

„Þetta hefur verið krefjandi en ótrúlega gaman á sama tíma,“ segir Haukur Helgi.

Klippa: Haukur ræðir aðgerðina, stoltið og hlutverkið

Töluvert fleira kemur fram í viðtalinu við Hauk sem má sjá í heild í spilaranum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×