Fótbolti

Tuchel hefur ekkert rætt við Greenwood

Siggeir Ævarsson skrifar
Mason Greenwood hefur raðað inn mörkum með Marseille
Mason Greenwood hefur raðað inn mörkum með Marseille Marseille

Thomas Tuchel, landsliðsþjálfari Englands, sagði á blaðamannafundi að möguleg endurkoma Mason Greenwood í enska landsliðið væri ekki í kortunum að svo stöddu og hann hefði ekkert rætt við leikmanninn enda væri hann að gera sig líklegan til að spila fyrir Jamaíka.

Greenwood á einn leik með enska landsliðinu en það var einmitt gegn Íslandi árið 2020 en hann var svo rekinn heim til Englands með skömm eftir að hafa brotið Covid varúðarráðstafanir sem voru í gildi þá. 

Hann var á þessum tíma leikmaður Manchester United en 2022 var hann ákærður fyrir tilraun til nauðgunar og árás og lék ekki aftur með United eftir það. Fyrir tímabilið 2024-25 samdi Greenwood við Marseille í Frakklandi og hefur náð sér vel á strik innan vallar.

Það er þó óhætt að fullyrða að Greenwood sé ekki hátt skrifaður á Englandi og hann freistaði þess því að fá að skipta um landslið en móðir hans á ættir að rekja til Jamaíka. Það virtist allt vera klappað og klárt fyrir þessi skipti og Greenwood var kominn með vegabréf í hendur. Nú virðist honum hafa snúist hugur og hundsað landsliðkallið frá Steve McLaren sem nú stýrir landsliði Jamaíka.

McLaren er ekki sáttur en segist þó ætla að halda áfram að ýta á Greenwood að skipta yfir. Að sama skapi hefur Tuchel sagt að Greenwood sé ekki á ratarnum hjá honum og hann hafi einfaldlega gert ráð fyrir að hann væri orðinn leikmaður Jamaíka. Hann útiloki þó ekkert varðandi leikmanninn þegar fram líða stundir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×