Fótbolti

„Héldum á­fram og drápum leikinn“

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Fyrirliðinn stýrði víkingaklappinu í leikslok
Fyrirliðinn stýrði víkingaklappinu í leikslok Vísir/Anton Brink

Hákon Arnar Haraldsson bar fyrirliðabandið í fyrsta sinn í keppnisleik fyrir Íslands hönd í kvöld er liðið lagði Aserbaíjsan 5-0 á Laugardalsvelli. Hákon Arnar spilaði allan leikinn og var stoltur af liðinu eftir leikinn.

„Ég er ánægðastur með að við héldum áfram og drápum leikinn. Í stöðunni 1-0 og 2-0 er ennþá leikur en þegar það er komið 3-0 þá er leikurinn svona að mestu leyti búinn. Við héldum áfram eftir það og ég er svona stoltastur af því.“ - Sagði Hákon Arnar Haraldsson, fyrirliði Íslands, stoltur eftir sigur kvöldsins.

Var þetta leikurinn sem unga kynslóðinn var að stimpla sig almennilega inn fyrir þjóðinni?

„Þetta er ekki besti andstæðingurinn til þess að meta hvort unga kynslóðin sé að koma hérna sterkt inn. Þetta er fyrsti leikur af sex, en það er sterkt hjá okkur að byrja með 5-0 sigri hérna heima.“

Fundu þið fyrir tólfta manninum í kvöld?

„Stuðningsmenn voru með okkur frá fyrstu sekúndu. Planið var að fá stuðningsmenn með okkur, eða tólfta manninn inn á völlinn. Það hjálpaði okkur gríðarlega í dag.“

Hvernig verður undirbúningur næstu daga og hvernig ætli þið að mæta til leiks á móti Frakklandi?

„Það er erfitt að segja og leikurinn mun vera frábrugðinn þessum leik. Við erum að fara spila við eitt besta landslið í heimi sem er með gríðarlega mikið af einstaklingsgæðum. Við munum vera minna með boltann og beita skyndisóknum. Þeir eru gríðarlega góðir en við munum gera okkar besta á erfiðum útivelli.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×