Erlent

Treystir á af­dráttar­laus við­brögð banda­manna við á­rás helgarinnar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Helsta von Úkraínu er að Bandaríkin grípi til aðgerða gegn Rússum, til að þvinga þá að samningaborðinu.
Helsta von Úkraínu er að Bandaríkin grípi til aðgerða gegn Rússum, til að þvinga þá að samningaborðinu. Getty/NurPhoto/Kristian Tuxen Ladegaard Berg

Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti sagði í viðtali við ABC í gær að Vladimir Pútín Rússlandsforseti hefði fengið nákvæmlega það sem hann vildi þegar Donald Trump Bandaríkjaforseti bauð honum til fundar í Alaska fyrir nokkrum vikum.

„Og það er synd... Pútín vill ekki hitta mig en hann vill gjarnan hitta forseta Bandaríkjanna, til að geta sýnt öllum myndskeið og myndir af því að hann sé þarna,“ sagði Selenskí.

„Hann getur komið til Kænugarðs,“ sagði Selenskí, þegar sjónvarpskonan Martha Raddatz benti á að Pútín hefði boðið honum að koma til fundar við sig í Moskvu. „Ég get ekki farið til Moskvu á meðan landið mitt sætir daglegum eldflaugaárásum... hann skilur það,“ bætti hann við.

Hann væri reiðubúinn til að funda með Pútín hvenær sem er, en ekki í Rússlandi.

Selenskí sagði í gær að það væri afar mikilvægt að bandamenn Úkraínu svöruðu fordæmalausri árás Rússa um helgina með afgerandi hætti. Sagðist hann reiða sig á afdráttarlaus viðbrögð Bandaríkjanna.

Keith Kellogg, sendifulltrúi Bandaríkjaforseta í málefnum Úkraínu, sagði í gær að árás Rússa væri ekki til marks um að þeir hefðu áhuga á því að binda enda á átökin við samningaborðið.

Sjálfur var Trump spurður að því í Hvíta húsinu í gær hvort hann væri reiðubúinn til að auka viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum og svaraði hann játandi. Engar upplýsingar hafa hins vegar fengist um mögulegar útfærslur.

Forsetinn sagði einnig að von væri á ónefndum Evrópuleiðtogum í Hvíta húsið í dag og á morgun og þá hygðist hann ræða við Pútín á næstunni.

Scott Bessent, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, sagði í gær að Bandaríkin og Evrópa gætu farið þá leið að leggja viðbótartolla á útflutning ríkja sem keyptu olíu af Rússum. Þannig væri hægt að þrengja að þeim efnahagslega og þvinga þá að samningaborðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×