Sport

Alcaraz tekur topp­sætið af Sinner eftir sigur á Opna banda­ríska

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Carlos Alcaraz eyddi tveimur vikum í einangruðum æfingabúðum eftir tapið á Wimbledon og hefndi sín á Opna bandaríska.
Carlos Alcaraz eyddi tveimur vikum í einangruðum æfingabúðum eftir tapið á Wimbledon og hefndi sín á Opna bandaríska. Matthew Stockman/Getty Images

Eftir rúmt ár í öðru sæti heimslistans tók Carloz Alcaraz toppsætið af Jannik Sinner með sigri í úrslitaleik Opna bandaríska meistaramótsins í tennis.

Þeir hafa mikla yfirburði yfir aðra tenniskappa og hafa á síðustu tveimur árum unnið öll átta risamótin, fjögur á mann. Alcaraz hefndi í gærkvöldi fyrir tap í úrslitaleiknum á Wimbledon fyrir tæpum tveimur mánuðum, en þar var Sinner að hefna fyrir tap á Opna franska tveimur mánuðum áður.

Alls hefur Alcaraz nú unnið sex risamót þrátt fyrir að vera aðeins 22 ára gamall, Wimbledon, Opna franska og Opna bandaríska í tvígang en á eftir að vinna Opna ástralska til að klára alslemmuna.

Á Opna bandaríska í ár töpuðu þeir samanlagt aðeins tveimur settum í aðdraganda úrslitaleiksins, svo miklu betri eru þeir en allir aðrir, og eftir tapið í gærkvöldi sagði Sinner að hann væri nógu góður til að vinna hvern sem er, en það væri vandamál að mæta Alcaraz.

Rígur þeirra minnir mjög á ríginn mikla milli Rogers Federer og Rafaels Nadal, sem að mættust í sautján af átján úrslitaleikjum á risamótum frá 2005-2009.

Þá steig ungur Novak Djokovic inn á sjónarsviðið og fór að berjast um titla en hann er núna orðinn eldri og þrátt fyrir að hafa náð í undanúrslit á öllum risamótum í ár viðurkennir hann sjálfur að hann eigi lítinn möguleika gegn Alcaraz og Sinner í fimm setta leikjum.

Tennisheimurinn bíður því spenntur eftir einhverjum sem getur keppt þá tvo, miklar vonir eru bundnar við ungan mann frá Brasilíu, Joao Fonseca, en hann er enn aðeins nítján ára gamall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×