Fótbolti

Endur­koman gegn Víkingum ekki nóg og Brönd­by skiptir um þjálfara

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Steve Cooper er mættur til Bröndby.
Steve Cooper er mættur til Bröndby. Jon Hobley/Getty Images

Steve Cooper, fyrrverandi þjálfari Leicester City og Nottingham Forest í ensku úrvalsdeild karla í fótbolta, er tekinn við Bröndby í efstu deild Danmerkur.

Danska félagið sló Víking úr leik í undankeppni Sambandsdeildar Evrópu í sumar þrátt fyrir 3-0 tap í Víkinni. Liðið féll hins vegar úr leik í næstu umferð gegn Strasbourg frá Frakklandi og leikur því ekki fleiri Evrópuleiki á tímabilinu.

Eftir að falla úr leik í Sambandsdeild Evrópu tapaði Bröndby 3-1 fyrir Midtjylland og virðist það hafa verið kornið sem fyllti glasið. Þó það sé meira en vika síðan ákvað stjórn félagsins að segja þjálfaranum Frederik Birk upp.

Hinn 36 ára gamli Birk entist stutt sem aðalþjálfari en hann tók við í febrúar á þessu ári eftir að hafa verið aðstoðarþjálfari liðsins þar áður.

Ljóst er að Bröndby var klárt með eftirmann því skömmu eftir að tilkynnt var að Birk hefði verið sagt upp var hinn 45 ára gamli Steve Cooper kynntur sem næsti þjálfari Bröndby.

Cooper stýrði síðast Leicester City en hefur þar áður stýrt Nottingham Forest og Swansea City. Þá náði hann eftirtektarverðum árangri með yngri landslið Englands. Hann skrifar undir samning í dönsku höfuðborginni til 2028.

Bröndby er í 4. sæti dönsku deildarinnar með 12 stig að loknum sjö umferðum. Fjórum stigum á eftir toppliði FCK.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×