Fótbolti

Onana stóð sem steinn og ýtti á­horf­anda

Ágúst Orri Arnarson skrifar
André Onana er landsliðsmarkmaður Kamerún en tókst ekki að koma í veg fyrir mark Grænhöfðaeyja í gær.
André Onana er landsliðsmarkmaður Kamerún en tókst ekki að koma í veg fyrir mark Grænhöfðaeyja í gær. Matthew Ashton - AMA/Getty Images

André Onana hefur ekki átt sjö dagana sæla, hann var sendur á láni til Trabzonspor og stóð síðan sem steinn í marki Kamerún meðan leikmaður Grænhöfðaeyja renndi boltanum yfir línuna í 1-0 sigri í gærkvöldi. Eftir leik lenti Onana svo í áflogum við áhorfendur.

Sigurinn var risastór fyrir Grænhöfðaeyjar, sem eru nú aðeins einum sigri frá því að tryggja sig inn á HM í fyrsta sinn frá upphafi. Kamerún er hins vegar í öðru sæti og mun fara í umspil eins og staðan er.

Dailon Livramento skoraði eina mark leiksins úr skyndisókn og margir netverjar eru þeirrar skoðunar að Onana hefði átt að gera betur. Hann hreyfði sig varla og kom ekki út úr markinu til að loka á Livramento, eins og sjá má hér fyrir neðan.

Sigrinum var vel fagnað af stuðningsmönnum Grænhöfðaeyja og hundruð manna ruddust inn á völlinn eftir leik. Margir æddu í átt að markmanninum seinheppna, sem svaraði fyrir sig með því að ýta í aðdáanda.

Onana mun nú halda til Tyrklands að ganga frá lánssamningi við Trabzonspor sem er frágenginn fyrir löngu en hefur ekki verið formlega staðfestur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×