Fótbolti

Ofur­tölvan telur Liver­pool lík­legast til að vinna Meistara­deildina

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mohamed Salah og félagar í Liverpool féllu úr leik fyrir Paris Saint-Germain í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu á síðasta tímabili. PSG fór alla leið og vann keppnina í fyrsta sinn.
Mohamed Salah og félagar í Liverpool féllu úr leik fyrir Paris Saint-Germain í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu á síðasta tímabili. PSG fór alla leið og vann keppnina í fyrsta sinn. epa/ADAM VAUGHAN

Samkvæmt útreikningum ofurtölvu Opta tölfræðiveitunnar er Liverpool líklegast til að standa uppi sem sigurvegari í Meistaradeild Evrópu næsta vor.

Keppni í deildarkeppni Meistaradeildarinnar hefst í næstu viku. Paris Saint-Germain á titil að verja en liðið vann Inter, 5-0, í úrslitaleik keppninnar á síðasta tímabili.

Þrátt fyrir litlar breytingar á leikmannahópi PSG telur ofurtölva Opta aðeins 12,1 prósent möguleika á að liðið endurtaki leikinn frá því í fyrra. 

Það skýrist að einhverju leyti að því að PSG á mjög erfiða leiki fyrir höndum á riðlakeppninni. Að mati Opta eiga bara PSV Eindhoven og Bayern München jafn erfiða leiki í riðlakeppninni sem hefst á þriðjudaginn.

Liverpool er talið líklegast til að vinna Meistaradeildina en samkvæmt ofurtölvunni eru möguleikar Rauða hersins 20,4 prósent. Þar á eftir kemur Arsenal með sextán prósent líkur.

Manchester City, sem vann keppnina fyrir tveimur árum, á 8,4 prósent líkur á að vinna Meistaradeildina samkvæmt útreikningum ofurtölvunnar, líkt og Barcelona. Real Madrid, sem hefur unnið keppnina oftast allra liða, er talið eiga 5,8 prósent líkur á að standa uppi sem sigurvegari næsta vor. Ofurtölvan telur sigurmöguleika Chelsea, sem varð heimsmeistari félagsliða í sumar, sjö prósent.

Inter, silfurlið Meistaradeildarinnar á síðasta tímabili, er aðeins talið eiga þrjú prósent líkur á að vinna keppnina, jafn miklar og Newcastle United.

Líklegustu liðin til að vinna Meistaradeildina samkvæmt ofurtölvu Opta

  1. Liverpool - 20,4%
  2. Arsenal - 16%
  3. PSG - 12,1%
  4. Man. City - 8,4%
  5. Barcelona - 8,4%
  6. Chelsea - 7%
  7. Real Madrid - 5,8%
  8. Bayern München - 4,3
  9. Inter - 3%
  10. Newcastle United - 3%

Liverpool, sem varð enskur meistari á síðasta tímabili, mætir Atlético Madrid í fyrsta leik sínum í Meistaradeildinni á miðvikudaginn kemur. Arsenal mætir Athletic Bilbao á þriðjudaginn. PSG hefur titilvörnina gegn Atalanta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×