Sport

Heims­met­hafinn Powell í bann 61 árs en á­stæðan á huldu

Sindri Sverrisson skrifar
Mike Powell á verðlaunapallinum eftir að hafa orðið heimsmeistari og sett heimsmet sem enn stendur, í langstökki árið 1991.
Mike Powell á verðlaunapallinum eftir að hafa orðið heimsmeistari og sett heimsmet sem enn stendur, í langstökki árið 1991. Getty/Mike Powell

Bandaríska frjálsíþróttagoðsögnin Mike Powell hefur verið úrskurðaður í ótímabundið bann frá öllum frjálsíþróttamótum, 34 árum eftir að hafa sett heimsmet í langstökki sem enn stendur. Leynd hvílir yfir ástæðu bannsins.

Bannið er vegna brota Powells á reglum um „öruggt umhverfi í frjálsíþróttum“ en ekki er tekið nánar fram í hverju það felst.

Powell hefur frá árinu 2022 verið þjálfari hjá Azusa Pacific háskólanum í Kaliforníu en skólinn hefur hingað til ekki svarað fyrirspurnum Reuters og fleiri miðla um bannið.

Það er AIU, heilindanefnd frjálsra íþrótta, sem úrskurðaði Powell í bann og tilkynnti um það í dag, daginn áður en sjálft heimsmeistaramótið í frjálsum íþróttum hefst í Tókýó í Japan.

Það var einmitt á HM í Tókýó, árið 1991, sem að Powell setti heimsmetið í langstökki þegar hann stökk 8,95 metra, eftir baráttu við landa sinn Carl Lewis. Það var fimm sentímetrum lengra en metið fræga sem Bob Beamon setti á ÓL í Mexíkóborg árið 1968.

Heimsmet Powells er talið eitt mesta íþróttaafrek sögunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×