Upp­gjörið: KA - Vestri 4-1 | Frá­bær sigur dugði ekki til

Kári Mímisson skrifar
KA-menn fögnuðu frábærum sigri í dag en það dugði ekki til að enda í efri hlutanum.
KA-menn fögnuðu frábærum sigri í dag en það dugði ekki til að enda í efri hlutanum. vísir/diego

KA tók á móti Vestra í lokaumferð Bestu deildar karla áður en deildinni er skipt upp í efra og neðra umspil. Leikið var á Akureyri við fínar aðstæður og áttu bæði lið möguleika á því að komast í efra umspilið með sigri í dag og með hagstæðum úrslitum í öðrum leikjum.

Leikurinn byrjaði með látum en á fyrstu fimm mínútunum vildu bæði lið fá vítaspyrnur eftir klaufaskap hjá markmönnum liðanna.

Fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós á 29. mínútu leiksins og það skoraði Hallgrímur Mar Steingrímsson úr vítaspyrnu. Morten Hansen renndi sér í vítateignum, feldi Birgi Baldvinsson og vítaspyrna dæmd sem Hallgrímur skoraði af miklu öryggi úr.

Heimamenn voru líklegri til að bæta við öðru marki áður en flautað var til hálfleiks og fékk til að mynda Viðar Örn Kjartansson ágætis tækifæri en skot hans var laust og beint á Guy Smith í marki Vestra. Staðan því 1-0 fyrir heimamenn í KA þegar liðin héldu til búningsherbergja.

Þegar leiknar hefðu verið um 10 mínútur af seinni hálfleiknum jafnaði Vestri og það gerði hinn sænski Diego Montiel úr vítaspyrnu. Ívar Örn Árnason braut á Gunnari Jónasi Haukssyni afar klaufalega inn í vítateignum og Montiel skoraði örugglega úr spyrnunni.

Heimamenn voru áfram sterkari aðili leiksins og þurftu lífsnauðsynlega á sigri að halda til að eiga von um að komast í efra umspilið, eitthvað sem KA-menn vilja væntanlega mikið eftir að hafa hafnað í sjöunda sæti undanfarin tvö ár. Hans Viktor Guðmundsson kom KA yfir eftir að hornspyrna heimamann hafnaði beint fyrir fætur hans og þaðan fór boltinn í netið.

Birnir Snær Ingason skoraði svo þriðja mark KA með laglegu skoti úr D-boganum áður en Herra KA, Hallgrímur Mar kórónaði sigurinn með því að setja boltann í netið eftir afar einfalda sókna heimamann þar sem vörn Vestra virtist vera alveg sofandi.

Lokatölur á Akureyri í dag 4-1 fyrir heimamenn sem gerðu það sem þeir gátu til að tryggja sig inn í efra umspilið en tókst ekki það þar sem Fram og FH gerðu jafntefli. Það verður því annað hvort Fram eða ÍBV sem ná síðasta sætinu inn í efra umspilið en ÍBV leikur á morgun og getur með sigri á Breiðablik komist yfir Fram.

Atvik leiksins

Atvik leiksins verður að vera eftir leik að þessu sinni þegar KA menn heyra það að Fram hafi jafnað gegn FH í uppbótatíma og gert út um vonir KA um að komast í topp 6. KA freistar því þess að vinna Forsetabikarinn þriðja árið í röð.

Stjörnur og skúrkar

Hallgrímur Mar og Birnir Snær voru sjóðheitir í dag og fóru oft illa með vörn Vestra sem var afar ólík því sem við þekkjum. KA hefði hæglega getað skorað fleiri mörk í dag og fengu heldur betur tækifærin til þess.

Hvað gerist næst?

Bæði lið geta enn fallið þar sem þau verða í neðra umspilinu nú eftir skiptingu. Þau eru aftur á móti bæði í ágætis stöðu og stefna væntanlega að klára þetta með sæmd og tryggja sér Forsetabikarinn sem veittur er því liði sem endar í sjöunda sætinu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira