Fótbolti

„Vissi ekki að við gætum þetta“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
USG vann óvæntan sigur í sínum fyrsta leik í Meistaradeildinni.
USG vann óvæntan sigur í sínum fyrsta leik í Meistaradeildinni. Dean Mouhtaropoulos/Getty Images

Union Saint-Gilloise náði frábærum úrslitum í fyrsta leik félagsins í Meistaradeildinni og sótti 3-1 sigur á útivelli gegn PSV.

USG varð belgískur meistari í vor, í fyrsta sinn í níutíu ár og tryggði sér sæti í Meistaradeildinni.

Fyrsti leikurinn var síðan draumi líkastur því USG komst þremur mörkum yfir og fór að lokum með 1-3 sigur.

„Þetta var ótrúlegt. Ég er ennþá að jafna mig, maður bjóst ekki við því að taka þriggja marka forystu á útivelli gegn jafn góðu liði og PSV. Ég vissi ekki við gætum þetta“ sagði miðvörðurinn Christian Burgess eftir leik.

Hann var, líkt og flestallir aðrir leikmenn USG, að spila sinn fyrsta leik í Meistaradeildinni.

„Þetta er nýtt fyrir okkur öllum en við munum njóta sigursins. Kannski hella okkur aðeins í glas í kvöld en frá og með morgundeginum er fullur fókus á næsta leik.“

Christian spilaði í miðri vörninni en stóð sig líka vel sóknarlega því fyrsta markið kom upp úr vítaspyrnu sem hann fiskaði. Promise David steig á punktinn og skoraði fyrsta mark USG í Meistaradeildinni.

„Ég get montað mig af þessu marki að eilífu. Þetta er frábær tilfinning, en þetta var vissulega bara víti. Allt liðið kom að þessu marki og ég tileinka liðsfélögum mínum fyrsta markið í Meistaradeildinni“ sagði David. 

Anouar Ait El Hadj skoraði annað mark USG eftir að hafa sprett hálfan völlinn. Kevin Mac Allister setti síðan þriðja markið með hnénu eftir hornspyrnu.

Ruben van Bommel minnkaði muninn fyrir PSV í uppbótartíma en hann hafði fyrr í leiknum átt skot í slána.


Tengdar fréttir

Varamennirnir lögðu upp fyrir hvorn annan

Arsenal sótti 2-0 sigur til Spánar, gegn Athletic, í fyrstu umferð Meistaradeildarinnar. Varamennirnir Gabriel Martinelli og Leandro Trossard gerðust hetjur gestanna. Samtímis sótti USG nokkuð óvæntan sigur gegn PSV.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×