Fótbolti

Sjáðu dramatíkina á Anfield: Van Dijk skoraði og Simeone brjálaðist

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Virgil van Dijk fagnar sigurmarki sínu gegn Atlético Madrid.
Virgil van Dijk fagnar sigurmarki sínu gegn Atlético Madrid. getty/Robbie Jay Barratt

Liverpool missti niður tveggja marka forskot gegn Atlético Madrid á Anfield í gær en tryggði sér sigur, 3-2, þökk sé marki fyrirliðans Virgils van Dijk í uppbótartíma.

Eftir sex mínútna leik var Liverpool komið í 2-0 eftir mörk frá Andy Robertson og Mohamed Salah. Marcos Llorente jafnaði fyrir Atlético með tveimur mörkum og allt stefndi í að Madrídarliðið færi með eitt stig af Anfield.

Van Dijk var á öðru máli og þegar tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma skallaði hann hornspyrnu Dominiks Szoboszlai í netið. Diego Simeone, knattspyrnustjóri Atlético, lenti í orðaskaki við stuðningsmenn Liverpool eftir markið og fékk rauða spjaldið.

Harry Kane skoraði tvívegis þegar Bayern München bar sigurorð af Chelsea á Allianz Arena, 3-1. Bæjarar komust yfir með sjálfsmarki Trevohs Chalobah og Kane bætti svo tveimur mörkum við. Hann hefur skorað níu mörk í fyrstu fimm leikjum Bayern á tímabilinu. Cole Palmer skoraði mark Chelsea í leiknum í München.

Meistarar Paris Saint-Germain hófu titilvörnina með því að rúlla yfir Atalanta, 4-0. Marquinhos, Khvicha Kvaratskhelia, Nuno Mendes og Goncalo Ramos skoruðu mörk Parísarliðsins.

Silfurlið Meistaradeildarinnar á síðasta tímabili, Inter, gerði góða ferð til Amsterdam og vann Ajax, 0-2. Marcus Thuram skoraði bæði mörkin með skalla eftir hornspyrnur.

Bodø/Glimt lenti 2-0 undir gegn Slavia Prag í fyrsta leik sínum í aðalkeppni Meistaradeildarinnar en kom til baka og náði í stig, 2-2. Youssoupha Mbodji skoraði bæði mörk Tékkanna en Daniel Bassi og Sondre Fet mörk norsku meistaranna.

Pafos frá Kýpur lék sömuleiðis sinn fyrsta leik í aðalkeppni Meistaradeildarinnar þegar liðið gerði markalaust jafntefli við Olympiacos á útivelli. Pafos var manni færri í rúman klukkutíma en Bruno fékk að líta rauða spjaldið á 26. mínútu.

Mörkin og rauðu spjöldin úr Meistaradeildinni í gær má sjá hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

„Þessi viðbrögð eru auðvitað ekki í lagi“

Þjálfarinn Diego Simeone reifst við áhorfanda og fékk að líta rautt spjald þegar Liverpool vann Atlético Madrid 3-2 með marki í uppbótartíma. Hann sér eftir sínum viðbrögðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×