Fótbolti

Sonur Zidane skiptir um lands­lið

Sindri Sverrisson skrifar
Luca Zidane er markvörður Granada í spænsku B-deildinni.
Luca Zidane er markvörður Granada í spænsku B-deildinni. Getty/Joaquin Corchero

Luca Zidane, sonur frönsku fótboltagoðsagnarinnar Zinedine Zidane, hefur nú skipt um þjóðerni á skrá FIFA eftir að hafa spilað fyrir yngri landslið Frakklands.

FIFA tilkynnti á heimasíðu sinni í dag að Luca hefði nú skipt frá frönsku þjóðerni yfir í alsírskt, og hann á þar með kost á því að spila fyrir A-landslið Alsírs.

Þessi 27 ára gamli markvörður Granada á Spáni náði aldrei að spila A-landsleik fyrir Frakka en lék með flestum af yngri landsliðum þeirra.

Luca er af alsírskum ættum í gegnum pabba sinn því foreldrar Zinedine Zidane eru frá Alsír. Þau fluttu til Frakklands árið 1953 til að flýja Alsírstríðið.

Zinedine Zidane, sem fæddist árið 1972, lék með yngri landsliðum Frakklands og svo 108 leiki fyrir A-landslið þjóðarinnar en í þeim skoraði hann 31 mark. Hann var í lykilhlutverki þegar liðið varð heimsmeistari árið 1998 og Evrópumeistari tveimur árum síðar.

Luca Zidane hóf feril sinn hjá Real Madrid, þar sem pabbi hans gerði garðinn frægan, og hefur allan sinn félagsliðaferil leikið á Spáni. Hann varði mark Rayo Vallecano og Eibar áður en hann gekk í raðir Granada sem er í næstefstu deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×