Fótbolti

Þrjú rauð spjöld á Sauð­ár­króki: Tinda­stóll fer á Laugardalsvöll

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Tindastóll er á leiðinni á Laugardalsvöll.
Tindastóll er á leiðinni á Laugardalsvöll.

Tindastóll er á leiðinni á Laugardalsvöll í úrslitaleik Fótbolta.net bikarsins eftir 3-1 sigur gegn Kormáki/Hvöt. Manuel Martínez skoraði þrennu gegn gestunum sem misstu hausinn gjörsamlega í seinni hálfleik og fengu þrjú rauð spjöld.

Martínez kom Tindastóli yfir eftir hálftíma leik með marki úr vítaspyrnu, sendi markmanninn í rangt horn og skaut á mitt markið. Stólarnir leiddu þegar flautað var til hálfleiks og haglél hafði skollið á.

Gestirnir frá Blönduósi jöfnuðu nágrannaslaginn snemma í seinni hálfleik þegar Matheus Gotler skoraði gott mark en aðeins tveimur mínútum síðar fékk Goran Potkozarac hins vegar að líta rautt spjald fyrir að taka andstæðing sinn hálstaki.

Mikill hiti var á vellinum í þessum hörkuleik og gestirnir trylltust gjörsamlega eftir að Manuel Martínez skoraði annað mark úr víti á 83. mínútu og svo þriðja markið beint úr aukaspyrnu á 87. mínútu.

Sigur Tindastóls var þá í raun orðinn að staðreynd, varamaðurinn Dominic Furness fékk rautt spjald fyrir að rífa kjaft og Bocar Djumo ákvað að láta reka sig af velli á lokamínútu uppbótartíma.

Tindastóll mun því spila úrslitaleik á Laugardalsvelli næsta föstudag um Fótbolta.net bikarinn, gegn annað hvort Gróttu eða Víkingi Ólafsvík sem mætast á morgun.

Allar upplýsingar um atvik leiksins eru fengnar af Fótbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×