Handbolti

Stór­leikur Ís­lendinganna dugði ekki til sigurs

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gísli Þorgeir og Ómar Ingi voru i ham.
Gísli Þorgeir og Ómar Ingi voru i ham. Vísir/Getty Images

Þýska stórliðið Magdeburg gerði aðeins jafntefli við Erlangen í efstu deild þýska handboltans. Tveir Íslendingar eru á mála hjá báðum liðum en Viggó Kristjánsson og Andri Már Rúnarsson voru fjarri góðu gamni hjá Erlangen.

Leiknum lauk 31-31 þar sem Erlangen var með öll völd á vellinum í fyrri hálfleik. Magdeburg hafði spilað erfiðan leik við Barcelona í Meistaradeild Evrópu í miðri viku og virtist það sitja í mönnum.

Á endanum tókst Magdeburg að næla í eitt stig þökk sé stórleiks Ómars Inga Magnússonar og Gísla Þorgeirs Kristjánssonar.

Ómar Ingi skoraði 11 mörk og gaf auk þess fjórar stoðsendingar. Gísli Þorgeir skoraði þrjú mörk ásamt því að gefa sjö stoðsendingar. Elvar Örn Jónsson skoraði þá eitt mark og gaf eina stoðsendingu.

Að loknum fimm leikjum er Magdeburg með 9 stig á toppi þýsku deildarinnar. Erlangen er í 10. sæti með 4 stig.

Í Danmörku gerðu Ringsted og Ribe-Esbjerg jafntefli, lokatölur 32-32. Guðmundur Bragi Ástþórsson skoraði tvö mörk í liði Ringsted á meðan Elvar Ásgeirsson skoraði fjögur í liði gestanna.

Liðin eru í 8. og 9. sæti með 3 stig að loknum fjórum leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×