Innlent

Hefur farið 100 sinnu á fjall á Fljótshlíðarafrétti

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Rúnar Ólafsson, sauðfjárbóndi á Eystri-Torfastöðum í Fljótshlíð, sem var um helgina að klára sína 100 smalaferð á Fljótshlíðarafrétti.
Rúnar Ólafsson, sauðfjárbóndi á Eystri-Torfastöðum í Fljótshlíð, sem var um helgina að klára sína 100 smalaferð á Fljótshlíðarafrétti. Aðsend

Rúnar Ólafsson, sauðfjárbóndi á Eystri-Torfastöðum í Fljótshlíð er nú í sínum hundruðustu leitum á fjalli á Fljótshlíðarafrétti og var því fagnað um helgina með fjallmönnum á afréttinum. Rúnar segir bjart yfir sauðfjárræktinni.

Rúnar er með um 400 fjár og hefur meira og minna alltaf verið með sauðfé í sínum búskap, enda dáir hann íslensku sauðkindina. Hann hefur farið í fimmtíu sinn í fyrstu leitir í Fljótshlíðarafrétti og nú líka 50 ferðir í seinni leitir og eru fjallferðirnar því orðnar eitt hundrað, sem verður að teljast ansi gott.

„Svo var ég búin að fara í 10 ár annars staðar áður,“ segir Rúnar, sem er mjög stoltur af öllum fjallferðunum sínum í gegnum árin og áratugina.

„Jú, jú, ég er mjög ánægður með þetta. Það er bara gott að geta hreyft sig og gert eitthvað.Þetta er alltaf rosalega skemmtilegt“, segir hann.

En hefur afrétturinn breyst mikið á öllum þessum árum?

„Já, hann er búin að gróa mikið upp núna síðustu árin, það er alveg rosaleg breyting. Ástæðan er bara minni beit, þetta var orðið alltof mikið,“ segir Rúnar.

Rúnar segir að það þýðir ekkert að vera að kvarta yfir stöðu sauðfjárræktarinnar, það sé ágætt upp úr henni að hafa.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Þannig að fénu hefur fækkað mikið?

„Já, þetta er bara orðið brot af því, sem var. Ég held að það hafi verið flest upp undir 14 þúsund á fóðrum en það eru einhver rúm 4 þúsund núna.“

En hvernig líst Rúnari á stöðu sauðfjárræktarinnar í dag og er ekki bara gott að vera sauðfjárbóndi?

„Jú, jú og ágætt upp úr þessu að hafa. Það þýðir ekkert að vera að kvarta alltaf, það verður bara að reyna að reka þetta vel“, segir Rúnar.

Þannig að þú ert bara jákvæður fyrir sauðfjárræktinni ?

„Já, já, já, það er ekkert annað að gera, það er örugglega margt verra en það,“ segir Rúnar Ólafsson, sauðfjárbóndi á Eystri-Torfastöðum í Fljótshlíð, sem er nú að klára sína 100 smalaferð á Fljótshlíðarafrétti.

Mynd af Rúnari áður en hann lagði af stað á föstudaginn í sína hundruðust fjallferð með sínum félögum.Aðsend



Fleiri fréttir

Sjá meira


×