Fótbolti

„Eins og í lífinu er kastað í þig alls­konar skít“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, á hliðarlínunni í kvöld.
Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, á hliðarlínunni í kvöld. Vísir/Diego

„Þetta er bara eins svekkjandi og það verður,“ sagði Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, eftir 1-1 jafntefli liðsins gegn Val í kvöld.

Blikar voru með forystu í leiknum þegar venjulegum leiktíma lauk, en vítaspyrna í uppbótartíma skilaði Valsmönnum stigi.

„Við vorum hrikalega góðir í fyrri hálfleik og alveg fram að markinu og komumst verðskuldað yfir. Auðvitað setja þeir okkur undir smá pressu en mér fannst þeir samt ekkert ógna okkur mikið. Við verjumst vel og mér fannst bara eins og við værum með þetta.“

„Mér fannst við hættulegir í skyndisóknum og líklegir til að komast í 2-0. En fótbolti er bara eins og hann er og eins og í lífinu er kastað í þig allskonar skít og annan leikinn í röð hérna á Hlíðarenda fáum við á okkur mark seint í uppbótartíma, sem er auðvitað bara mjög svekkjandi.“

„Bara hvernig þetta mark kemur. Ég átta mig ekki alveg á því og þarf að sjá þetta aftur - hvort það hafi verið eðlilegt að bæta við átta mínútum. Við vorum með tvær skiptingar og þeir tvær, það eru tvær mínútur. En sex í viðbót, ég veit ekki hvaðan þær koma,“ sagði Halldór einnig.

„En þegar það er búið að setja skiltið upp vitum við að við þurfum að verjast í átta mínútur í viðbót. Svo hélt ég að við værum að sigla þessu heim þegar þessi hornspyrna kemur sem þeir fá vítið upp úr. Ég er ekki búinn að sjá þetta aftur, en mér fannst eins og Hólmar stökkvi upp og slái boltann með hendinni og þannig fá þeir hornið.“

„Ég tel að frammistaðan hafi verið nægilega góð til að vinna leikinn, alveg klárlega. Frábær frammistaða, bæði varnar- og sóknarlega. Alvöru hugur og andi í mönnum. Ég get í rauninni ekki beðið um meira,“ sagði Halldór að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×