Innherji

Heildar­virði Al­vogen metið á tvo milljarða dala við sölu á fé­laginu til Lotus

Hörður Ægisson skrifar
Bjartur Shen, sem stýrir fjármálum og viðskiptaþróun Lotus, Róbert Wessman, stjórnarformaður Lotus, og Peter Vazharov, forstjóri Lotus, þegar samkomulagið var undirritað um kaup á Alvogen í dag. 
Bjartur Shen, sem stýrir fjármálum og viðskiptaþróun Lotus, Róbert Wessman, stjórnarformaður Lotus, og Peter Vazharov, forstjóri Lotus, þegar samkomulagið var undirritað um kaup á Alvogen í dag. 

Alvogen Pharma í Bandaríkjunum, sem er að stórum hluta í eigu fjárfestingafélags Róberts Wessman, hefur verið selt til Lotus í Taívan en heildarvirði samheitalyfjafyrirtækisins í viðskiptunum getur numið um tveimur milljörðum Bandaríkjadala. Þetta er önnur risasala Róberts á félögum í lyfjageiranum þar sem hann fer með ráðandi hlut á fáeinum mánuðum.

Gengið var frá samkomulagi um kaup Lotus Pharmaceutical, sem er skráð á markað í Taívan, á öllu hlutafé í New Alvogen Group Holdings fyrr í dag en það bandaríska félag er eigandi að Alvogen US Pharma. Félagið á og rekur eina lyfjaverksmiðju í Norwich, New York fylki, sem er um sextán þúsund fermetrar að stærð, en höfuðstöðvar þess eru í New Jersey.

Róbert Wessman er í dag stjórnarformaður bæði Alvogen og Lotus en félag í hans eigu fer með um tíu prósenta hlut í taívanska lyfjafyrirtækinu eftir að hafa selt sig nokkuð niður á undanförnum árum. Hann kom fyrst að Lotus í ársbyrjun 2014 þegar það var lítið félag með engan útflutning en um þessar mundir eru vörur þess seldar inn á um níutíu markaði og er leiðandi þegar kemur krabbameinslyfjum í sínum geira.

Yfirtaka Lotus á Alvogen US er sögð marka tímamót í vexti fyrirtækisins og sameinað félag verði meðal tuttugu stærstu sérhæfðu lyfjafyrirtækja á heimsvísu. Sameinaðar tekjur og hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) tvöfaldist þegar kaupin ganga í gegn en lyfjapípa Lotus mun þá stækka í 100 vörur.

Heildartekjur Lotus á fyrstu sex mánuðum þessa árs námu samtals jafnvirði um 300 milljónir Bandaríkjadala og jukust um liðlega sex prósent milli ára. Á öllu árinu 2024 voru tekjurnar nálægt 600 milljónir dala og hagnaðurinn um 150 milljónir dala. Í fyrra var áætlað að velta Alvogen, sem framleiðir og selur flókin samheitalyf sem meðal annars eru notuð til meðferðar við krabbameini, hjarta-, öndunar-, tauga og meltingarsjúkdómum, hefði verið um 930 milljónir dala en EBITDA-hagnaðurinn um 480 milljónir dala.

Heildarvirði (e. enterprise value) Alvogen US í sölunni til Lotus er metið á allt að tvo milljarða dala, eða jafnvirði nærri 250 milljarða íslenskra króna, og er kaupverðið greitt með blöndu af reiðufé og forgangshlutabréfum. Endanlegt söluverð mun taka mið af greiðslum tengdum fjárhagslegum markmiðum í rekstri Alvogen á næstu misserum og árum. Innherji hafði áður sagt frá því að unnið væri að sölu á bandaríska samheitalyfjafyrirtækinu og að teknu tilliti til vaxtaberandi skulda – sem eru um 900 milljónir dala – væri áætlað að hlutafjárvirði félagsins í þeim viðskiptum yrði nálægt 1,2 milljarðar dala.

Bandarísku fjárfestingabankarnir Jefferis og Rothschild voru sameinlegir fjármálaráðgjafar Alvogen í viðskiptunum á meðan lögmannsstofan White & Case var lögfræðilegur ráðgjafi. Viðskiptin eru meðal annars háð samþykki viðeigandi eftirlitsaðila.

Þróun hlutabréfaverðs Lotus í kauphöllinni í Taívan undanfarin fimm ár en félag Róberts heldur utan um tíu prósenta hlut. Markaðsvirði Lotus í dag nemur um 1,6 milljörðum Bandaríkjadala, jafnvirði um 200 milljarða íslenskra króna. 

Fjárfestingafélag Róberts fer beint og óbeint með um 40 prósenta hlut í Alvogen Pharma í Bandaríkjunum, systurfélag Alvotech, á móti fjárfestingafélögunum Temasek og CVC sem komu inn í hluthafahópinn fyrir hartnær einum áratug. Móðurfélag Alvogen Pharma - Alvogen Lux Holdings – heldur í dag meðal annars á um þrjátíu prósenta hlut í Alvotech.

Róbert segir að yfirtaka Lotus á Alvogen sé eðlilegt framhald af samstarfi félaganna undanfarin áratug. Með sameiningunni muni sérhæfð vörulína Lotus fá breiðari og öflugri vettvang til vaxtar og styrkja stöðu félagsins á kjarnamörkuðum þess í Asíu og Bandaríkjunum. Lotus mun fá aðgang að rannsóknar- og þróunarstarfsemi ássamt framleiðsluaðstöðu og sölu- og markaðsteymi Alvogen.

Langsamlega stærsti eigandi Lotus í Taívan, með um fjörutíu prósenta hlut, er Innobic Asia, dótturfélag fyrirtækjasamstæðunnar PTT sem er í meirihlutaeigu taílenska ríkisins. Hlutabréfaverð Lotus er niður um nærri 30 prósent frá áramótum en markaðsvirði félagsins er ríflega 50 milljarðar taívanskra dala, eða sem jafngildir ríflega 1,62 milljörðum Bandarískra dala.

Heildartekjur Lotus námu í kringum 600 milljónir Bandaríkjadala á árinu 2024 og hagnaðurinn var um 150 milljónir dala.

Samkomulagið um sölu á öllu hlutafé í Alvogen til Lotus kemur skömmu eftir að fjárfestingafélag Róberts gekk frá sölu á nánast öllum eignarhlut sínum í Adalvo til alþjóðlega fjárfestingarrisans EQT í sumar. Adalvo, sem hefur milligöngu um samninga milli lyfjafyrirtækja um skráningu og markaðssetningu samheitalyfja, var verðmetið á um einn milljarð Bandaríkjadala í þeim viðskiptum.

Félagið hans Róberts heldur eftir fimm prósenta hlut – það var fyrir söluna með mikinn meirihluta í Adalvo – en sjálfur verður hann ekki lengur í stjórn lyfjafyrirtækisins.

Í tilefni af sölunni á Adalvo sagði Róbert í viðtali við Innherja að þótt það væri „frábært félag“ væri betra að selja heldur en að halda í það um leið og hann hefði ekki tíma til að sinna því almennilega og eftirláta þá öðrum að taka við keflinu. „Ég horfi á það þannig,“ sagði Róbert, en hann er sem kunnugt er forstjóri og stjórnarformaður líftæknilyfjafyrirtækisins Alvotech – skráð á markað á Íslandi, Bandaríkjunum og Svíþjóð – og félög honum tengd fara samanlagt með yfir sextíu prósenta hlut.

„Ég hef verið að vinna að því að einfalda Aztiq-eignarhaldsstrúktúrinn minn. Það er ágætt að reyna að einfalda lífið og Alvotech er það sem skiptir mig öllu máli í dag. Ég vil því ekki vera að verja takmörkuðum tíma mínum í önnur félög,“ útskýrði Róbert.

Samkomulagið sem núna hefur verið gert við Lotus um kaup á Alvogen kemur nokkrum mánuðum eftir að bandaríska samheitalyfjafélagið kláraði langþráða endurfjármögnun á lánum upp á ríflega 670 milljónir dala. Annars vegar var um að ræða 553 milljóna dala lán á gjalddaga snemma í nóvember 2028 og hins vegar 120 milljóna dala lán á gjalddaga 1. mars á árinu 2029. Meðalkjör á lánveitingunni jafngilda 9,8 prósenta álagi ofan á SOFR.

Þeir sem stóðu að baki lánveitingunni til Alvogen Pharma voru bandarískir stofnanafjárfestar sem sérhæfa sig í fjárfestingum í heilsu- og lyfjageiranum, einkum sjóðirnir Centerbridge Partners og Blue Torch Capital.


Tengdar fréttir

Al­vogen býst við hækkun á láns­hæfi eftir fjár­hags­lega endur­skiplagningu

Alvogen Pharma í Bandaríkjunum gerir ráð fyrir því að Standard & Poors muni á næstu dögum uppfæra lánshæfiseinkunn samheitalyfjafyrirtækisins, meðal annars með hliðsjón af breyttri fjármagnsskipan eftir að félagið kláraði endurfjármögnun á langtímalánum þess. Matsfyrirtækið gaf út lánhæfiseinkunn til skamms tíma fyrir helgi sem var sagt endurspegla valkvætt greiðsluþrot á hluta af útistandandi skuldum Alvogen.

Gott gengi Lotus eykur virði hlutar Róberts um tugi milljarða á einu ári

Markaðsvirði samheitalyfjafyrirtækisins Lotus hefur liðlega þrefaldast frá því að fjárfestingafélagið Aztiq, aðaleigandi Alvotech og stýrt af Róberti Wessman, kom að kaupum á meirihluta í félaginu fyrir rétt rúmu einu ári og nemur nú jafnvirði yfir 400 milljörðum íslenskra króna. Hlutabréfaverð Lotus, sem er stærsta lyfjafyrirtækið á markaði í Taívan, rauk upp meira en tuttugu prósent þegar það birti árshlutauppgjör sitt um miðja síðustu viku sem sýndi yfir 40 prósenta tekjuvöxt.

Al­vogen klárar rúm­lega níutíu milljarða endur­fjár­mögnun á lánum félagsins

Alvogen í Bandaríkjunum hefur klárað langþráða endurfjármögnun á lánum samheitalyfjafyrirtækisins að jafnvirði um 90 milljarða króna frá hópi sérhæfðra bandarískra stofnanafjárfesta. Matsfyrirtækið S&P lækkaði lánshæfismat sitt á Alvogen í byrjun ársins ásamt því að setja félagið á svonefndan athugunarlista og vísaði þá meðal annars til óvissu vegna endurfjármögnunar á skuldum þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×