Innlent

Á­flog og miður far­sæl eldamennska

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla á höfuðborgarsvæðinu hafði í ýmsu að snúast í nótt.
Lögregla á höfuðborgarsvæðinu hafði í ýmsu að snúast í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stillti til friðar í gærkvöldi þegar áflog brutust út á knæpu. Þá kom lögregla einnig að málum þegar maður fór að berja á rúður öldurhúss í miðborginni, eftir að hafa verið vísað út.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í yfirliti lögreglu yfir verkefni næturinnar.

Lögregla handtók einnig „víðáttuölvaðan“ mann í miðborginni og flutti á lögreglustöð sökum ástands. Einn var handtekinn vegna eignaspjalla og annar fyrir ölvunarakstur.

Tvær tilkynningar bárust vegna þjófnaða í verslunum og þá rannsakar lögregla innbrot á veitingastað.

Viðbragðsaðilar voru einnig kallaðir út þegar eldamennska fór úr böndunum og reykræsta þurfti húsið. Ekki er greint frá því hvort um heimili var að ræða eða rekstur.

Getið er um atvik þar sem mannlaus bifreið rann niður brekku og utan í nokkrar aðrar bifreiðar en frekari upplýsingar fylgja ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×