Erlent

Sprenging í Osló talin tengjast sænsku glæpa­gengi

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Lögreglan kom sandpokum fyrir á seinni sprengjunni.
Lögreglan kom sandpokum fyrir á seinni sprengjunni. EPA/Terje Pedersen

Tveir þrettán ára drengir eru í haldi lögreglu eftir að handsprengja var sprengd í miðborg Osló í gærkvöldi. Lögreglan telur málið tengjast sænsku glæpagengi og mannráni.

Þrettán ára drengur var handtekinn vegna sprengingar sem sprakk á Pilestredet í Osló. Um var að ræða handsprengju og var mikill viðbúnaður á vettvangi í allt gærkvöld. Þar fannst önnur handsprengja sem var síðan sprengd af lögreglu. Enginn slasaðist í sprengingunni.

Í frétt NRK segir að drengnum hafi verið lofað þrjátíu þúsund norskum krónum, tæpar 360 þúsund íslenskum krónum, fyrir að framkvæma verknaðinn. Tvö önnur börn voru tekin í hald lögreglu, annað þeirra einnig þrettán ára strákur sem er einnig talinn tengjast verknaðinum. Þriðja barninu hefur verið sleppt úr haldi.

Tengist glæpagengjum og mannráni

Ein af tilgátum lögreglunnar er sú að málið tengist sænsku glæpasamtökunum Foxtrot, sem rekin eru af Rawa Majid, einnig þekktur sem kúrdíski refurinn. Lögreglan telur að hægt sé að rekja sprengjuna til átaka milli tveggja glæpahópa.

„Það er stór hluti af rannsókninni og við erum með upplýsingar sem við getum ekki greint frá,“ segir Grete Lien Metlid, rannsóknarlögreglumaður.

Þá er einnig tilgáta lögreglu að mannránsmál frá því í síðustu viku tengist einnig sprengingunni. 24 ára gömlum karlmanni var rænt og hann fluttur úr landi. Maðurinn fannst síðan heill á húfi á föstudag í síðustu viku. Tveir Norðmenn og einn Svíi hafa verið kærðir í málinu.

„Skjólstæðingurinn minn hefur verið í gæsluvarðhaldi síðan hann var handtekinn vegna mannránsmálsins, og getur því ekki hafa haft eitthvað að gera með þetta mál,“ segir Nils Christian Nordhus, verjandi Svíans.

Norðmennirnir tveir neita einnig sök í málinu.


Tengdar fréttir

Sprenging í Osló og stórt svæði girt af

Þrettán ára drengur hefur verið handtekinn vegna sprengingar sem sprakk á Pilestredet í Osló. Mikill viðbúnaður var á vettvangi í kvöld vegna sprengingarinnar. Engan sakaði þegar sprengjan sprakk. Lögregla sprengdi á vettvangi aðra sprengju. Fylgst er með gangi mála í vaktinni að neðan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×