Innlent

Gular við­varanir vegna úr­komu og aukin skriðuhætta

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hluti Vestfjarðar sleppur en annars er gul veðurviðvörun um land allt sem byrjar um sexleytið á fimmtudag á sauðaustanverðu landinu.
Hluti Vestfjarðar sleppur en annars er gul veðurviðvörun um land allt sem byrjar um sexleytið á fimmtudag á sauðaustanverðu landinu. Veðurstofa Íslands

Gul viðvörun er í gildi fimmtudag og föstudag vegna mikillar rigningar sem spáð er á Vestur-, Suður- og Suðausturlandi og sunnanverðum Austfjörðum frá fimmtudegi fram á mánudag.

Á vef Veðurstofu Íslands segir að búast megi við vatnavöxtum í ám og lækjum á þessum svæðum. Aukin hætta sé á skriðuföllum, eins og aurskriðum og grjóthruni á þessum svæðum. Lægðagangur næstu daga muni skila talsverðri rigningu víða um land í dag og fram yfir helgi.

Úrkoman verður mikil í á annan sólarhring. Svona er spáin um fjögurleytið aðfaranótt föstudags.Veðurstofa Íslands

Á morgun muni bæta vel í úrkomuákefð sem eigi að vara sem samfelld úrkoma fram á laugardag. Úrkoman frá fimmtudegi muni ná yfir nær allt landið. Spár gera ráð fyrir að ákefðin verði hve mest á Suður- og Suðausturlandi og sunnanverðum Austfjörðum, yfir 25 mm/klst til fjalla eða á jöklum og í kringum 10 mm/klst á láglendi. Uppsöfnuð úrkoma fram á laugardagsmorguninn 27. september gæti náð upp yfir 500 mm til fjalla og jökla og hátt í 100 mm á láglendi á þremur sólarhringum. 

Aurskriðurnar á Seyðisfirði í desember 2020 eru mörgum í fersku minni.Vísir/ArnarHalldórs

Svona ákafri úrkomu fylgi vatnavextir í lækjum og ám. 

„Vegna magns úrkomu má ekki útiloka vatnsflóð í kringum vatnsfarvegi. Það er gott að huga að niðurföllum í kringum hús til að forðast vatnstjón.“

Auknar líkur séu á skriðuföllum, svo sem grjóthruni, aurskriðum og aurflóðum í lækjarfarvegum. 

„Einnig getur verið hætta á skriðum og grjóthruni þar sem vegir liggja undir bröttum hlíðum. Bent er á að fólk sýni aðgát þegar ferðast er undir bröttum hlíðum, horfi í kringum sig og forðist að dvelja lengi innan og neðan farvega. Auk þess þarf að hafa í huga að skriður geta fallið eftir að mesta ákefð rigningar er liðin hjá. Mikilvægt er að fylgjast með veðurspám, útgefnum viðvörunum og ástandi vega á vef Vegagerðarinnar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×