Körfubolti

Yfir­lýsing KKÍ: Hvorki vilja né geta tjáð sig um mál Davíðs

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Hannes S. Jónsson, framkvæmdastjóri KKÍ.
Hannes S. Jónsson, framkvæmdastjóri KKÍ.

Körfuknattleikssamband Íslands hefur loks rofið þögnina sem ríkt hefur síðan Davíð Tómas Tómasson sagði frá því hvernig hann hrökklaðist úr starfi. KKÍ segir málefni sem snúa að einstaklingum vera viðkvæm og þykir leitt hvar þetta mál er statt en vill ekki og telur sig ekki geta tjáð sig ítarlegar.

Davíð Tómas var alþjóðadómari í körfubolta en sagði frá því í viðtali við Vísi í fyrradag að hann væri búinn að leggja flautuna á hilluna. Hann tæki þá ákvörðun þó ekki af sjálfsdáðun. Honum hafi verið bolað burt og sagðist hann ekki sá fyrsti til að vera skrifaður út úr sakramentinu hjá dómaranefnd sambandsins.

Jón Guðmundsson greindi þá einnig frá óánægju með samskipti sín við dómaranefnd KKÍ og kallaði eftir svörum frá nefndinni um þá dómara sem hafa helst úr lestinni á undanförnum árum.

KKÍ vildi ekki svara fyrir málið þegar Vísir leitaði viðbragða í gær, fyrradag og í morgun en hefur nú sent frá sér yfirlýsingu sem lesa má hér fyrir neðan.

Þar segir að á málinu séu í það minnsta tvær hliðar. Þetta sé viðkvæmt mál og hendur KKÍ séu bundnar af persónuverndarsjónarmiðum.

Reynt hafi verið ná utan um erfiðleikana og leysa úr ágreiningnum en þrátt fyrir að hlutlaus aðili hafi verið fenginn til að miðla málum hafi sættir ekki náðst.

KKÍ telji sig ekki geta tjáð sig frekar en þyki leitt hvar málið er statt.

Yfirlýsing KKÍ í heild sinni

Vegna opinberrar umræðu um málefni körfuknattleiksdómara undanfarna daga er mikilvægt að hafa í huga að í öllum málum og sér í lagi í mannlegum samskiptum þá eru alltaf í það minnsta tvær hliðar.

KKÍ hefur verið legið á hálsi fyrir að veita ekki viðtöl eða segja sín hlið á málum.

Málefni er snúa að einstaklingum eru viðkvæm og gæta þarf sérstaklega að persónuverndarsjónarmiðum í þeim efnum. Þetta bindur hendur KKÍ.

KKÍ vill ekki og telur sig hvorki geta né vera heimilt að tjá sig ítarlega um sína hlið eins og kynni að vera nauðsynlegt til þess að allir geti skilið fyllilega þær erfiðu aðstæður sem eru nú komnar upp.

Þegar kemur að samskiptum einstaklinga þá er það stundum þannig að upp geta komið samskiptaörðugleikar og þá sjá aðilar hlutina ekki í sama ljósi eða líta ekki málin sömu augum.

Málefnið verður því þyngra og erfiðara að ná utan um og leysa. Þó reynt sé að ná utan um erfiðleikana, fyrirgefa, sættast og halda áfram að vinna saman þá tekst það því miður ekki alltaf eins og reyndin hefur verið í þessu tilfelli. Þetta er raunin jafnvel þó að í þessu tilfelli hafi verið fenginn utanaðkomandi hlutlaus aðili til þess að miðla málum og reyna að ná sáttum.

Öllum sem að málinu koma frá KKÍ þykir leitt hvar málið er statt.

Eins og nefnt er hér að framan þá eru þessi mál viðkvæm og oft ekki hjálplegt að tjá sig um þau á opinberum vettvangi enda þótt KKÍ hafi nú fundið sig tilknúið til þess að veita frekari upplýsingar um málið með þessari yfirlýsingu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×