Innlent

Stærðarinnar grjót féll á fjöl­farinn veg

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Gríðarstórt grjót féll á veginn á milli Ísafjarðarbæjar og Súðavíkur.
Gríðarstórt grjót féll á veginn á milli Ísafjarðarbæjar og Súðavíkur. Samsett

Íbúi í Súðavík keyrði fram á stærðarinnar grjót sem runnið hafði úr Kirkjubólshlíð. Um er að ræða veg sem íbúar á svæðinu aka nær daglega.

Dagbjört Hjaltadóttir, íbúi í Súðavík, keyrði fram á stærðarinnar grjóthnullung sem oltið hafði úr Kirkjubólshlíð niður á veg sem liggur á milli Súðavíkur og Ísafjarðarbæjar. Hún hafði samband við Vegagerðina og segir þau hafa verið eldsnögg að fjarlægja grjótið.

„Þetta náði langleiðina upp á toppinn á bílnum hjá mér,“ segir Dagbjört í samtali við fréttastofu.

Það hafi verið einskær heppni að enginn hafi orðið fyrir grjótinu enda sé um að ræða fjölfarinn veg. Dagbjört segist keyra þarna um á hverjum degi, líkt og margir íbúar á svæðinu aki um veginn daglega, til að mynda til að stunda nám eða vinnu. Oft sé hún sjálf að keyra í mun verri veðurskilyrðum en í sólinni í dag.

„Hefði ég verið að keyra þarna að nóttu til í myrkri hefði þessi steinn komið eins og skrattinn úr sauðaleggnum.“

Dagbjört segir flesta nágranna hennar hafa orðið fyrir einhverju tjóni eða skaða bæði í Súðavíkurhlíð og Kirkjubólshlíð. Til að mynda hafði sonur hennar lent í því að affelga bílinn þegar hann keyrði leiðina á milli bæjanna tveggja.

„Þetta er veruleiki sem við Vestfirðingar búum við.“

Íbúar á svæðinu hafa lengi kallað eftir því að búa ætti til göng á milli Súðavíkur og Ísafjarðar vegna fjölda grjóthruna og slysa sem orðið hafa á Súðavíkurhlíð. 


Tengdar fréttir

Snjóflóð féllu á Súðavíkurhlíð

Snjóflóðahætta er á Vestfjörðum en nokkur snjóflóð féllu á Súðavíkurhlíðina í nótt og lokaðist vegurinn um hlíðina. Þung færð er víða enn um landið þó jólaveðrið sem hefur verið að hrjá landsmenn sé að mestu gengið niður. Þá er Öxnadalsheiði enn lokuð og óvíst hvort það takist að opna fyrir umferð um hana í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×